Rússar draga úr möguleikum erlendra fjárfesta

Míkhaíl Mísjústín.
Míkhaíl Mísjústín. AFP

Rússar gera nú allt í sínu valdi til að draga úr möguleikum fyrir erlenda fjárfesta til að draga fjárfestingar sínar innan Rússlands úr landinu.

Forsætisráðherra Rússlands, Míkhaíl Mísjústín, tilkynnti í gær að nú væri verið að undirbúa forsetatilskipun sem muni koma í veg fyrir að erlendar fjárfestingar verði dregnar úr landinu.

Efnahagur landsins hefur látið undan síga eftir ýmsar viðskiptaþvinganir Vesturlanda undanfarna daga.

Ýmsir rússneskir bankar voru útilokaðir frá færslukerfinu SWIFT fyrir helgi. Gildi rúblunnar féll í kjölfarið í gær þegar markaðir opnuðu á ný og hafa Rússar hækkað stýrivexti upp í 20 prósent í kjölfarið.

Þrátt fyrir þessar þvinganir heldur Dmitrí Peskov talsmaður Kremlar því fram að Rússland muni geta haldið út þessar þvinganir og virðist þetta vera fyrsta skref í þeirri baráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert