Meðbyrinn gríðarleg forréttindi

Fríða, Sigrún, Linda og Margrét í Höfða síðdegis í dag.
Fríða, Sigrún, Linda og Margrét í Höfða síðdegis í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna (sís og trans) og trans, kynsegin og intersex fólks á Íslandi, voru veitt síðdegis í dag.

Fríða Ísberg hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Merkingu. Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir hlutu verðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir Reykjavík barnanna og Sigrún Helgadóttir var verðlaunuð fyrir Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni, í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

„Alveg smá yfirþyrmandi“

„Það eru gríðarleg forréttindi að fá svona meðbyr,“ segir Fríða Ísberg en hún hlaut einnig Bóksalaverðlaunin nýverið fyrir Merkingu auk þess sem henni voru veitt Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2021.

„Þetta er alveg smá yfirþyrmandi. En ég hef, sem betur fer, ekki alveg getað „ego-trippað“ yfir þessu. Ég er búin að vera mjög ólétt og mjög þreytt og með fókusinn á því verkefni,“ segir Fríða en hún eignaðist sitt fyrsta barn fyrir nokkrum dögum.

„Það er ótrúlega fínt að vera með svona líkamlega jarðtengingu á móti vímunni sem það er að fá viðurkenningu. Þá hleypur þetta ekki með mann í gönur.“

Fríða segist ekki komin á skrið með næsta verkefni, hún sé enn sem komið er „bara með þreifarana úti“. „Ég ætla bara að fara í fæðingarorlof, kynnast dóttur minni og svo fylgja Merkingu eftir erlendis.“

„Óskabarn okkar“

„Við erum nú metnaðarfullar konur,“ segir Margrét og hlær, þegar hún er spurð hvort verðlaunin hafi komið þeim Lindu á óvart.

„Það er ótrúlega gaman að aðrir kunni að meta þetta og það er alltaf óvænt að vera útvalinn, það er ekki hægt að segja annað,“ segir hún og bætir við að sér þyki vænt um þessi verðlaun, ekki síst af þau séu veitt á faglegum forsendum.

Reykjavík barnanna er önnur bókin sem Margrét og Linda vinna saman. Þær unnu áður saman að Íslandsbók barnanna sem þær hlutu einnig Fjöruverðlaunin fyrir. „En Reykjavík barnanna er óskabarn okkar. Samvinna okkar er svo miklu nánari í þessari bók og það skilar sér í henni. Ég vona að við eigum eftir að vinna eitthvað saman aftur en það verður bara að koma í ljós.“

Sigurður „algjör þjóðareign“

Sigrún Helgadóttir, sem hlaut verðlaunin fyrir ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, segir að það sé alltaf gaman að fá viðurkenningu fyrir verk sín. Hún hlaut einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verkið.

„Ég var ekkert að keppa að einhverju svona, ég var að keppa að því að gera þetta vel og að þetta væri verðug vinna miðað við viðfangsefnið, hann á ekki annað skilið.“

Hún segir það skipta einna mestu máli að viðfangsefnið fái aukna athygli. „Mér eiginlega hnykkti við að finna út hvað fólk hafði gleymt honum. Þegar ég ólst upp þá vissu allir hver hann var, hann var algjör þjóðareign.“

Finna má ítarlegri viðtöl við verðlaunahafana í Morgunblaði morgundagsins.

mbl.is