Sumir eiga rétt á bótum vegna ástands gatna

Mokstur í fullum gangi í Nökkvavogi.
Mokstur í fullum gangi í Nökkvavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Margir hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni á bílum undanfarið vegna slæms ástands gatna. Þegar klakinn bráðnar koma holurnar í ljós. Skarpar holubrúnir sprengja dekk og brjóta felgur. Einnig losna plasthlífar undan bílunum og þarf ekki nema góðan skafl til það gerist. Það á m.a. við um innri bretti og ýmsar aðrar hlífar, segir eitt verkstæðið.

Annað verkstæði segir að allt sem er undir bílunum sé viðkvæmt fyrir höggum sem koma við að aka í djúpar holur. Fjöðrunargormar og demparar geta brotnað við það rétt eins og þegar ekið er of hratt á hraðahindrun. Þá geta stýrisendar og spindilkúlur skemmst.

Tilkynnt um holur í vegbot.is

„Fólk sem lendir í svona tjóni spyr okkur hvort það eigi rétt á bótum, annaðhvort í gegnum tryggingar eða frá veghaldara,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).

Hann segir að tryggingafélögin séu öll búin að taka undirvagnstjón inn í kaskótryggingar, það er skemmdir á undirvagni, hjólbörðum og felgum sem verða t.d. við að aka á grjót eða í holur. Þessi viðbót er tiltölulega ný af nálinni. Sum vátryggingafélög fara fram á tvöfalda eigin áhættu vegna slíkra tjóna, að sögn Runólfs.

Margar götur hafa verið torfærar vegna klaka undanfarið. Djúpar holur …
Margar götur hafa verið torfærar vegna klaka undanfarið. Djúpar holur sprengja dekk og valda tjóni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef tilkynnt hefur verið um holu eða hvarf í vegi og því ekki verið sinnt með merkingu eða viðgerð getur veghaldari orðið ábyrgur fyrir tjóni sem af því hlýst. Það hafa komið upp slík mál og bíleigendur fengið bætur. Sú ábyrgð hvílir á veghaldara að grípa sem fyrst til aðgerða til að koma í veg fyrir tjón,“ segir Runólfur.

FÍB er með forritið Vegbót (vegbot.is) þar sem fólk getur skráð holu eða hvarf í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara. Gáttin hefur verið opin í á annað ár.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert