Nýtt sendiráð í Varsjá

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Gerard Sławomir Pokruszyński, sendiherra …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Gerard Sławomir Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi.

Til stendur að stofnsetja íslenskt sendiráð í Varsjá í Póllandi síðar á þessu ári. Á vef stjórnarráðsins kemur fram að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á kynnt tillögu þess efnis á fundi ríkistjórnarinnar síðastliðin föstudag og var utanríkismálanefnd kynnt málið í morgun.

Gerard Sławomir Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi, átti í hádeginu fund með utanríkisráðherra þar sem honum var greint frá áformunum, en pólsk stjórnvöld hafa starfrækt  sendiskrifstofu í Reykjavík frá 2008. Í tillögunni er lagt til að fyrirsvar vegna Litháen, auk Úkraínu og Belarús, verði fært til hinnar nýju sendiskrifstofu.

„Verðmæt vinátta þjóðanna“

Pólitísk, efnahagsleg og menningarleg samskipti Íslands og Póllands hafa aukist verulega á undanförnum árum. Fjöldi Íslendinga sem eiga uppruna sinn að rekja til Póllands fer sívaxandi og hafa samskipti landanna aukist verulega og eflt viðskipta- og menningartengsl. Þá fara hagsmunir landanna saman í mikilvægum málaflokkum, svo sem öryggis- og varnamálum.

„Með opnun sendiskrifstofu Íslands í Varsjá kemst loks á nauðsynleg gagnkvæmni í stjórnmálasamband ríkjanna og það er ánægjulegt að geta stigið það skref og undirstrikað hversu verðmæt vinátta þjóðanna er fyrir okkur Íslendinga. Pólska sendiráðið í Reykjavík hefur sinnt mikilvægri þjónustu við þann stóra hóp Pólverja sem býr á Íslandi. Íslenskt sendiráð í Varsjá getur að sama skapi veitt íslenskum ríkisborgurum og Pólverjum með náin tengsl við Ísland þjónustu og um leið greitt götu íslenskra fyrirtækja á þessum slóðum og gætt íslenskra hagsmuna, til dæmis á vettvangi Uppbyggingarsjóðs EES,“ er haft eftir Þórdísi í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að sendiráðið verði opnað í haust og yrði það þar með 27. sendirskrifstofa Íslands erlendis.

mbl.is