Fjöldi landsmanna með oxýkódón-ávísun þrefaldast

Oxýkódón er opíóði og fellur því í flokk ávana- og …
Oxýkódón er opíóði og fellur því í flokk ávana- og fíknilyfja, of stórir skammtar geta verið lífshættulegir. mbl.is/Valgarður Gíslason

Mikil fjölgun hefur verið á afgreiddar lyfjaávísanir ópíóða á síðustu tíu árum. Má þar sérstaklega nefna á lyfinu oxýkódón og oxýkódón/naloxón, þar sem fjöldi einstaklinga sem hafa leyst út ávísun að minnsta kosti einu sinni á árinu 2021 hefur tæplega þrefaldast frá árinu 2013.

Í talnabrunni embættis landlæknis segir að árinu 2021 var lyfið leyst út til 4.209 einstaklinga. Af þeim voru 1.801 eða 42% sem leystu lyfið einungis út einu sinni. 

Oxýkódón er ópíóði og fellur því í flokk ávana- og fíknilyfja, of stórir skammtar geta verið lífshættulegir. 

„Sú spurning hlýtur að vakna hvort lyfjunum sé í einhverjum tilvikum ávísað áður en fólk finnur fyrir verkjum, t.d. eftir aðgerð. Lyfin séu svo jafnvel leyst út án þess að vera nokkurn tíma tekin. Þegar fleiri eru komnir með sterk verkjalyf heim með sér eykst hættan á því að afgangslyf komist í hendur á þriðja aðila,“ segir í upplýsingum landlæknis.

Fimmtungur kvenna með ávísun

Í talnabrunninum kemur fram að ávísunum ópíóíða hefur fjölgað milli síðustu tveggja ára, í fyrsta sinn síðan árið 2017. 

Ríflega 61 þúsund einstaklingar leystu út að minnsta kosti eina ávísun á ópíóíða á árinu 2021, samanborið við ríflega 57 þúsund árið áður.

Þá er umtalsverður munur á milli kynja þar sem 19,6% kvenna leystu út ávísun árið 2021 samanborið við 13,8% karla. 

Þá leystu tæplega 35% einstaklinga yfir áttræðu út ávísun á ópíóíða.

Mest selt hérlendis af Norðurlöndunum

Lyf í flokki blöndu kódeíns og parasetamóls eru mest notuðu lyfin í flokki ópíóíða eða 67% af því heildarmagni sem notað var af ópíóíðum árið 2021. Til þess lyfjaflokks teljast meðal annars Parkódín og Parkódín forte.

Þá trónir Ísland á toppi Norðurlandanna yfir ávísanir á ópíóða en í talnabrunni landlæknis segir að það megi skýra með meiri notkun lyfja hér á landi sem innihalda blöndu parasetamóls og kódeíns.

Embætti landlæknis hvetur lækna eindregið til að ávísa vægari verkjalyfjum fremur en ópíóíðum og hafa hugfast að heimilt er að ávísa minna magni lyfs en sem nemur minnstu pakkningu.

mbl.is