„Fólk ekki tilbúið að vinna áfram hjá kvalara sínum“

Samsett mynd/mbl.is

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, segist ekki hafa séð annað eins á sinni tíð sem líkist uppsögn alls starfsfólk Eflingar.

Aðspurð hvort henni finnist líklegt að starfsfólk Eflingar sæki aftur eftir fyrri stöfum sínum segir Lára að af sinni eigin reynslu að dæma er fólk ekki tilbúið að vinna áfram hjá kvalara sínum. Þá segir hún það fordæmislaust, síðan að lög um hópuppsagnir voru sett, að stéttarfélag taki upp á því að segja öllu starfsfólkinu sínu upp á einu bretti. 

Eins og fram hefur komið hefur Sólveig Anna, formaður Eflingar, sagt öllu starfsfólki stéttarfélagsins upp og voru uppsagnarbréf send til starfsfólksins í nótt.

Mbl.is ræddi við Láru í dag um málið að athuga hvaða áhrif það muni hafa á starfsemi stéttarfélagsins. 

Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti.
Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti. mbl.is/Frikki

Lára segir að ekki sé neitt lagalegt sem standi í vegi fyrir slíkri uppsögn en að vinnubrögðin verði að teljast varhugaverð.

Þá segir hún að lög um hópuppsagnir nái aðeins til tilvika þar sem fyrirtæki nálgast þrot og rekstur fyrirtækisins krefst þess að það þurfi að segja upp ákveðnum fjölda. Lögin eigi því ekki við um tilvik sem þetta. 

Telur líklegt að eigi að rýra kjör starfsmanna 

Að sögn Láru er það að eina leiðin til að breyta kjörum starfsfólks til hins verra að segja starfsfólki upp og ráða það svo aftur að nýju með verri kjörum. Sé það þannig undir starfsfólki komið hvort það sætti sig við verri kjör eða ákveði að hætta.  

Ályktar Lára sem svo að með umræddi uppsögn á öllu starfsfólki Eflingar sé stefnan sett á að rýra kjör starfsmanna.  

Að sögn Láru verður það að teljast persónulegt mat hvers og eins hvort að uppsögnin geti talist fagleg. Bendir hún á að ekkert ófaglegt sé í fari uppsagnarbréfanna. Sé því í raun ekkert ófaglegt við framkvæmd uppsagnarinnar  

Hefur áhyggjur af starfsemi Eflingar 

Lára segist einna helst hafa áhyggjur af því hvað verði um réttindi félagsmanna ef uppsagnirnar hafi áhrif á störf skrifstofunnar.  

„Stjórnin verður að sjá um það að það sé ákveðin þjónusta veitt af hálfu félagsins, það er ekki bara það að halda félagsfundi, það er til dæmis sjúkrasjóður þarna sem fjöldin allur af fólki stólar á að fá greiðslu úr í hverjum mánuði.“

„Ef þetta fólk fær ekki greitt úr sjúkrasjóði fer það fljótlega að finna fyrir því. Sömu sögu má segja ef fólk fær ekki rétt kaup og það þarf að fylgja því eftir. Öll þessi þjónusta leggst af ef fólkið á skrifstofunni er farið.“

Segir Lára það þurfa að komast í ljós á næstu dögum hvort það takist að halda uppi einhverri þjónustu hjá stéttarfélaginu. 

Starfsmenn Eflingar jafnt og án stéttarfélags 

Þá bendir Lára á að þeir starfsmenn Eflingar sem eru félagar í stéttarfélaginu eigi í raun og veru í engin önnur hús að venda hvað varðar réttindi í umræddri uppsögn. Séu þeir starfsmenn jafnt og án stéttarfélags. 

Segir hún að jafnvel þeir starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélagi VR séu í svipaðri stöðu. Telur hún það ólíklegt að VR komi til með að aðstoða þá starfsmenn eitthvað í að standa vörð um réttindi þeirra.

Að hennar mati mun VR líta á þetta sem mál annars stéttarfélags og muni því ekki koma til með að skipta sér að málinu. Telur hún það setja VR í óþægilega stöðu að skipta sér að innanhúsmálum hjá öðru stéttarfélagi. 

Því til rökstuðnings bendir Lára á að VR aðstoðaði ekki þá starfsmenn sem sagt var upp þegar að Sólveig Anna varð fyrst nýr formaður Eflingar. 

Telur Lára það ólíklegt að allt starfólk Eflingar sæki um fyrra starf sitt að nýju. „Mín reynsla segir mér að fólk sé ekki mjög tilbúið að halda áfram að vinna hjá kvalara sínum,“ segir Lára í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert