Segir engan geta „slaufað“ Rússlandi

Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi.
Míkhaíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sendiherra Rússlands á Íslandi segir að enginn geti „slaufað“ Rússlandi.  Menningarleg- og vísindaleg áhrif Rússlands, auk áhrifa á sviði vísinda og stjórnmála, séu of mikil til að hægt sé að horfa framhjá þeim.

„Þjóð okkar mun þrífast á þessum þrýstingi eins og hún hefur ávallt gert í gegnum söguna. Rússland er ekki aðeins ríkt þegar kemur að náttúrulegum auðlindum, heldur einnig þegar kemur að hæfileikaríku og duglegu fólki sem er tilbúið til að gera allt sem það getur til að þróa land sitt áfram,“ skrifar sendiherrann Míkhaíl Noskov í pistli á facebooksíðu sendiráðsins. 

Hann tjáir sig einnig um innrás Rússa í Úkraínu sem hófst fyrir um tveimur mánuðum síðan.

„Þegar kemur að markmiðum sérstakrar hernaðaraðgerðar til að fjarlægja úkraínska herinn og afnasistavæða landið, þá munu þau vissulega nást þrátt fyrir að NATO hafi útvegað stjórnvöldum í Kænugarði mikið af vopnum og öðrum herbúnaði. Allri ógn við öryggi Rússlands af hálfu Úkraínu verður útrýmt,“ bætir hann við.

Hann minnist þess í pistlinum að á morgun séu 77 ár liðin frá sigrinum yfir nasistum í síðari heimsstyrjöldinni. Þar hafi Sovétríkin spilað mikilvæga rullu en að Vesturlönd hafi gert lítið út hetjudáðum Sovétmanna við að stöðva nasistana.

Noskov sakar Vesturlönd jafnframt um að hafa lýst yfir upplýsingastríði á hendur Rússland vegna átakanna í Úkraínu þar sem falskar fréttir séu helsta verkfærið.

mbl.is