Mikil streita olli miklum veikindum

Ragnheiður Júlíusdóttir á landsliðsæfingu.
Ragnheiður Júlíusdóttir á landsliðsæfingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Örmögnun, ljósfælni, máttleysi, vöðvaþreyta, kvíði, svimi og hraður hjartsláttur eru meðal einkenna sem handboltakonan Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram, hefur glímt við síðan hún greindist með Covid um mánaðamótin janúar-febrúar. Áður gat hún leikið heilan handboltaleik án þess að blása úr nös en nú er tíu mínútna göngutúr henni nánast ofviða.

Ragnheiður, sem er 24 ára, glímir við „long-covid“ og segir síðustu mánuði þá erfiðustu sem hún hafi upplifað. Veikindin taki mjög á, bæði andlega og líkamlega.

Hún segir að byrjunina á veikindunum megi rekja til mikils álags sem hún var undir í desember og janúar.

Var undir miklu álagi áður en hún fékk Covid

„Ég missti matarlystina, var alltaf með hausverk og álagið var rosalega mikið í desember og janúar. Ég var nýkomin heim úr landsliðsferð, fékk flensu og var í prófum í háskólanum. Auk þess er ég í 100% vinnu og í handboltanum,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

Um áramótin byrjaði hún að þróa með sér streitueinkenni og endaði á því í janúar að biðja um veikindaleyfi í vinnu. „Mér leið mjög illa og var mjög ólík sjálfri mér.“

Eftir tíu daga í veikindaleyfi frá vinnu fékk Ragnheiður Covid, í lok janúar „Ég spila leik á móti ÍBV, líður vel í honum en daginn eftir smitast ég af Covid. Ég var í rauninni ekkert mikið veik, fékk smá í hálsinn, kvef og vondan hausverk,“ segir Ragnheiður sem ætlaði að spretta á fætur að einangrun lokinni:

„Ég ætlaði að sigra heiminn og mæta strax á æfingu þótt ég væri ekki alveg tilbúin. Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af æfingunni finn ég að ég er örmagna og líður ótrúlega illa. Ég mætti svo aftur á næstu æfingu og það sama gerðist. Ég varð mjög stressuð og skildi ekki hvað var að gerast,“ útskýrir Ragnheiður. 

Frá því hefur Ragnheiður glímt við margvísleg einkenni. Fyrst og fremst segist hún glíma við mikla þreytu þó frekari mætti tala um örmögnun heldur en þreytu.

Ragnheiður hefur ekki spilað leik frá því í lok janúar …
Ragnheiður hefur ekki spilað leik frá því í lok janúar þegar hún greindist með veiruna. mbl.is/Karítas

Það sem var mjög auðvelt áður er mikið verk núna. Ég hef átt erfitt með að fara út að labba í tíu mínútur eða út í búð. Ég er að upplifa einkenni eins og ljósfælni, er viðkvæm fyrir hávaða, heilaþoku, hausverk, svima og hraðan hjartslátt,“ segir Ragnheiður og bætir við að einkennin séu mjög mismunandi eftir dögum og vikum.

Óvissan erfiðust

Hún hefur leitað til lækna og farið í blóðprufur, rannsóknir og myndatökur sem allar koma eðlilega út. Henni þykir vanta frekar upp á Covid-sérfræðinga hér á landi til að fá frekari upplýsingar í þessum erfiðu eftirköstum veirunnar.

Yfirlæknir á Reykjalundi sagði lækninum mínum að þetta ætti að líða hjá en það tæki tíma,“ segir Ragnheiður sem hefur lesið sér til og aflað upplýsinga á netinu þar sem fólk í svipaðri stöðu deilir reynslu sinni og hvað það gerði til að jafna sig. „Það er mjög gott að tengja við það og ég verð ævinlega þakklát fyrir að finna eitthvað sem ég tengi við.

Hún segir bataferlið mikla þolinmæðisvinnu en erfiðust sé óvissan, enginn veit í rauninni hvenær hún muni ná fullum bata. „Ég gert gert ýmislegt til að reyna að flýta fyrir batanum, eins og breytt mataræði, stunda hugleiðslu, hugrænar meðferðir og öndunaræfingar eða farið í sjósund og fleira slíkt. Ég veit að það koma einhver bakslög í bataferlinu og geri ráð fyrir hægum bata.“

Taugakerfið fast í varnarstöðu

Ástæðuna fyrir löngum eftirköstum veirunnar segir Ragnheiður vera streituástandið sem hún glímdi við áður en hún smitaðist. „Taugakerfið festist í einhvers konar varnarstöðu. Líkaminn sagði stopp og ég er bara föst þar en líkaminn þarf að komast úr þessu streituástandi til að ná að jafna sig,“ segir Ragnheiður og heldur áfram:

„Ég er föst í „fight or flight mode“ sem þýðir í stuttu máli að líkaminn er alltaf í vörn. Til dæmis ef ég er að spjalla við fólk næ ég ekki að halda uppi samræðum því líkaminn er í varnarstöðu, heldur að ég sé í hættu, og þá fara öll einkennin í gang. Ef fólk lendir í einhvers konar áfalli í kringum Covid-smit eru meiri líkur á að lenda í þessu. Ég lenti örugglega í þessu út af streituástandinu sem ég var í.

Ragnheiður, sem er ein besta skytta landsins, vonast til að …
Ragnheiður, sem er ein besta skytta landsins, vonast til að geta farið aftur að dúndra á markið næsta haust. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Vorönnin hefur farið í vaskinn hjá Ragnheiði, bæði í skóla og handbolta en úrslitakeppnin í handboltanum er að ná hámarki. Samherjar hennar í Fram eru í 2:0-forystu í einvígi gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit. Ragnheiður segir það ótrúlega erfitt að fylgjast bara með.

„Það er erfiðara en ég get lýst. Ég á alveg fína daga en það er súrt að hugsa um að vera ekki að spila og ekki með stelpunum og að vera smá svona út undan í fyrsta skipti síðan ég byrjaði í meistaraflokki. Þetta er öðruvísi en ef ég væri fótbrotin. Þá væri ég að mæta í alla leiki, á hliðarlínunni og í klefanum. Ég hef ekki treyst mér til þess að mæta og horfa. Mér líður eins og ég sé ekkert í handbolta lengur.“

Ragnheiður vonast til þess að fara aftur á fullt í handboltanum í haust.

„Það er erfitt að stefna að einhverju en ég vonast til þess að komast aftur í mitt venjulega líf í haust. Ég trúi því og er mjög bjartsýn á að ná bata og koma sterkari sem aldrei fyrr á völlinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert