Þekkirðu þann sem er að heilsa þér?

Heiða María Sigurðardóttir, doktor í taugavísindum og dósent við Sálfræðideild …
Heiða María Sigurðardóttir, doktor í taugavísindum og dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Ljósmynd/HÍ/Kristinn Ingvarsson

Ertu mannglögg/ur lesandi góður? Eða kveikirðu kannski sjaldan á perunni þegar fólk heilsar þér kumpánlega á förnum vegi? 

Til stendur að rannsaka hvað veldur því að við eigum svo misjafnlega auðvelt með að bera kennsl á fólk út frá andliti. Í það minnsta verður gerð heiðartilraun til þess hjá fólki í Sálfræðideild Háskóla Íslands. 

Mbl.is setti sig í samband við Heiðu Maríu Sigurðardóttur, doktor í taugavísundum og dósent í sálfræði í HÍ, og spurði hana út í rannsóknina. 

„Heildarmarkmiðið er í rauninni að skilja að einhverju leyti hvernig sjónkerfi mannsins virkar, hvernig við skiljum hvað fyrir augu ber,“ sagði Heiða María þegar mbl.is hafði samband við hana. Heiða segir alls kyns rannsóknir hafa verið gerðar á augunum sjálfum en síður hvernig heilinn bregst við því sem augun sjá. 

 „Manni finnst að þetta ætti að vera einfalt verkefni af því að þetta er hversdagsleg aðgerð, þ.e.a.s að bera kennsl á fólk sem maður hittir. Því er auðvelt að horfa framhjá því að í heilanum er mikill búnaður sem fer í þetta, eins konar sjónkennslubúnaður. Við vitum mikið um hvernig augað virkar því það hefur verið rannsakað vel. Það er fyrsta skrefið en svo gerast alls konar hlutir í heilanum enda þarf að vinna úr upplýsingum sem skila sér í gegnum augun. 

Hvað þarf að gerast til að þekkja manneskju í sjón? Þú þarft að þekkja hana frá mismunandi sjónarhornum, við mismunandi birtustig, hvort hún sé langt í burtu eða nálægt þér, með svona hárgreiðslu eða hinsegin, og óháð því hvort hún hafi elst. Heilinn þarf að vinna úr þessu til að við getum vitað hver viðkomandi er.“

Olnboginn ekki heppilegur til að bera kennsl á fólk

Andlitsblinda felur ekki í sér að viðkomandi sjái ekki andlit fyrir framan sig heldur er spurning um hvort viðkomandi takist að bera kennsl á þann sem það sér eða ekki. 

„Fólk veit auðvitað að það er að horfa á andlit þótt þetta sé kallað blinda. Þetta er spurning um að geta nýtt þær upplýsingar til að bera kennsl á fólk. Ég get til dæmis borið kennsl á fólk út frá andliti þótt ég sé reyndar frekar léleg í því. Ég get hins vegar ekki borið kennsl á fólk með því að sjá olnbogann á viðkomandi þótt fólk sé sjálfsagt með mismunandi olnboga. Ég tek þetta sem dæmi vegna þess að fyrir fólk með slæma andlitsblindu er sennilega álíka auðvelt fyrir það að bera kennsl á fólk út frá andlitinu eða olnboga get ég ímyndað mér“, segir Heiða og bendir á að þá reyni fólk að nýta sér eitthvað annað til að þekkja fólk. 

„Fólk sem er andlitsblint getur þá nýtt sér eitthvað annað: Hlusta eftir röddinni, þekkja göngulagið, taka eftir áberandi fæðingarbletti eða eitthvað slíkt.“

Óvenju mannglöggir geta nýst

Lesendur kannast eflaust við einstaklinga sem eru sérlega mannglöggir, aðra sem eru sérlega ómannglöggir og allt þar á milli. 

„Við viljum skilja betur hvers vegna fólk er svona ofboðslega misjafnlega mannglöggt. Er það sérstaklega bundið við andlit? Þá getur það verið sértæk andlitsblinda. Þeir sem eru hins vegar sérstaklega mannglöggir eru kallaðir á ensku „super-recognizers“. Við myndum vilja vita hvort þeir mannglöggu hafi svipaða styrkleika að öðru leyti eða hvort þetta sé algerlega bundið við að þekkja fólk.

Heiða María Sigurðardóttir ásamt samstarfsfólki.
Heiða María Sigurðardóttir ásamt samstarfsfólki. Ljósmynd/HÍ/Kristinn Ingvarsson

Í þessari rannsókn höfum við áhuga á fólki á öllum skalanum. Við viljum einnig fá fólk sem er í meðallagi í þessu til að taka þátt. Við erum að skoða þennan einstaklingsmun á andlitsskynjun og mér finnst mjög áhugavert að þessi einstaklingsmunur virðist að einhverju leyti ganga í ættir. Dæmi eru um að nánast allir í fjölskyldu séu andlitsblindir.

Fólk getur verið með ólíkindum mannglöggt og getur þá þess vegna munað eftir einhverjum sem þjónaði þeim til borðs í eitt skipti mörgum árum fyrr. Slíkir eiginleikar geta nýst. Dæmi eru um að lögreglan fái mannglöggt fólk til liðs við sig, til dæmis þegar reynt er að bera kennsl á fólk í öryggismyndavélum.“

Hafa áhuga á öllum

Einfalt er að taka þátt í rannsókninni og er það gert í gegnum netið á síðunni visionlab.is.

„Rannsóknarvinnan er í nokkrum þáttum. Við byrjum á að spyrja fólk örstuttra spurninga um bakgrunn. Einnig spyrjum við fólk hvernig því hefur gengið að þekkja andlit. Þá leggjum við fyrir andlitskennslupróf en þar þarf fólk að reyna að leggja andlit á minnið og þekkja þau aftur. Auk þess erum við með myndleitarverkefni sem minnir svolítið á bækurnar Hvar er Valli? Þar sem niðurstöður þurfa að vera nákvæmar þá þurfum við að mæla ýmislegt nokkuð ítarlega en við reynum að gera þetta eins skemmtilegt og við getum. Þetta getur gefið okkur vísbendingar um hvernig heilinn er uppsettur, hvernig kerfið virkar og hvernig við getum vitað hvað er fyrir framan okkur,“ segir Heiða og hún leggur mikla áherslu á að þau sem standa að rannsókninni vilji fá sem flesta til að taka þátt.

 „Það væri frábært að sem flestir taki þátt því þá verður meira að marka niðurstöðurnar. Fólki er velkomið að taka þátt óháð því hvernig það telur sig standa í andlitsskynjun, og við höfum alveg jafn mikinn áhuga á fólki sem er bara þokkalegt í að þekkja andlit. Við erum ekki eingöngu að leita eftir fólki sem er mjög mannglöggt eða lítið mannglöggt. En ef fólk vill vita hvernig því gengur þá fær það að sjá helstu niðurstöðurnar sínar þegar það hefur lokið þátttöku,“ segir Dr. Heiða María Sigurðardóttir. 

mbl.is