Reyna að sporna við grófu ofbeldi meðal barna

Foreldrar grunnskólabarna á Akureyri fengu bréf í vikunni þar sem …
Foreldrar grunnskólabarna á Akureyri fengu bréf í vikunni þar sem þeir voru beðnir um að ræða ábyrgð og áhættu af ofbeldi við börn sín. mbl.is/Sigurður Bogi

Ofbeldismálum sem koma inn á borð til lögreglunnar á Akureyri, þar sem börn eiga í hlut, hefur fjölgað síðastliðna mánuði. Yfirleitt er um að ræða börn á unglingastigi grunnskóla sem eru að beita önnur börn grófu ofbeldi. Verknaðurinn er gjarnan tekinn upp og myndböndum dreift á samfélagsmiðla. Yngri börn eru oft áhorfendur og taka þannig óbeint þá í ofbeldinu.

Þetta staðfestir Silja Reynisdóttir, forvarnarfulltrúi hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is. Lögreglan sendi í þessari viku bréf til foreldra grunnskólabarna á Akureyri í samstarfi við Barnavernd Eyjafjarðar og Akureyrarbæ, þar sem foreldrar eru hvattir til að ræða við börn sín um ábyrgð og hættu sem fylgir þátttöku í slagsmálum.

„Það sem við sjáum er að það er oft fullt af börnum sem eru viðstödd og þau eru oft yngri. Þetta er að að gerast að kvöldlagi þar sem krakkarnir eru að hittast, oft í kringum skólalóðir og slíkt. Við sjáum að það er fullt af börnum sem verða vitni af þessu og finnst því mikilvægt að upplýsa foreldra þannig þeir geti tekið umræðuna við sín börn heima,“ segir Silja.

Virðist eftirsóknarverð hegðun meðal unglinga 

Svo virðist sem það viðhorf sé ríkjandi hjá ákveðnum hópi unglinga að líkamsárásir séu eftirsóknarverð hegðun. Þá virðist vera að börnin hvetji hvert annað til að taka upp myndbönd af slagsmálunum, sem stundum byrji sem svokallaður „gamnislagur“ sem leiðir svo af sér alvarlegri slagsmál.

„Við erum að reyna að sporna við þessu,“ segir Silja. Mikilvægt sé að fá foreldra og skólayfirvöld með í lið í það verkefni og því hafi verið óskað eftir samstarfi með áðurnefndu bréfi.

Hún segir erfitt að segja til um hvort um raunverulega aukningu sé að ræða á ofbeldi meðal grunnskólabarna eða hvort mál séu frekar tilkynnt vegna vitundarvakningar sem hefur átt sér stað. Það að ofbeldið sé tekið upp og því dreift á samfélagsmiðla geri það líka sjáanlegra, en lögreglan hefur verið að sjá fleiri myndbönd í umferð en áður.

„Það eru fleiri tilkynningar til okkar en það gæti líka tengst vitundarvakingu um að hafa samband þegar ofbeldi á sér stað. Við erum líka að hvetja foreldra og börn til að hafa samband ef þau lenda í einhverju slíku. Að þau láti lögreglu eða barnavernd vita. Þetta er svolítið sambland því,“ útskýrir hún.

Beita grófu ofbeldi og niðurlægja

Aðspurð hvort það sé eitthvað ákveðið mynstur í ofbeldishegðuninni segir hún það oft frekar gróft og snúist um niðurlægingu.

„Við sjáum alveg gróft ofbeldi í þessu, það er verið að sparka, sparka í búk andstæðingsins. Oft bara frekar gróft ofbeldi. Stundum snýst þetta um niðurlægingu, að niðurlægja viðkomandi. Svo eru þarna aðilar sem eru að taka upp gagngert til að setja í dreifingu. Við vitum það að þetta fer mjög hratt á milli unglinga. Þegar þetta er komið á myndband þá fer þetta víða.“

Silja segir börnin oft vita miklu meira en þeir fullorðnu um málin og því séu þau einnig hvött til að láta einhvern fullorðin vita ef þau verða vitni af ofbeldi; foreldra, lögreglu eða barnavernd.

Þróun sem á sér stað víðar

Þá tekur hún fram að vandamálið sé ekki einungis bundið við Akureyri heldur virðist þessi þróun vera eiga sér stað víðar.

„Þetta er það sama og við höfum verið að sjá víða. Þetta er ekki bara einangrað við Akureyri. Við höfum verið að sjá þetta á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar,“ segir Silja.

Síðastliðið haust var greint frá því á mbl.is að ofbeldismálum þar sem börn áttu í hlut hefði fjölgað í Hafnarfirði og Garðabæ. Voru þá börn að beita önnur börn ofbeldi, taka upp verknaðinn og dreifa myndböndum á samfélagsmiðla, líkt og nú er að gerast á Akureyri. Var þá talað um að gerendur væru yngri en áður og að samfélagsmiðlar spiluðu stórt hlutverk í þessari þróun.

mbl.is