Fyrsta skóflustungan að BT-húsinu

Willum Þór heilbrigðisráðherra við skóflustunguna.
Willum Þór heilbrigðisráðherra við skóflustunguna. Ljósmynd/Eva Björk

Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, tók í dag fyrstu skóflustungu að nýju bílastæða – og tæknihúsi nýs Landspítala, ásamt Pétri Guðmundssyni stjórnarformanni Eyktar og fulltrúum starfsmanna, þeim Rannveigu Rúnarsdóttur frá LSH og Þórönnu Elínu Dietz frá HÍ.

Nýtt bílastæða- og tæknihús verður um 19.000 fermetrar að stærð með um 500 bílastæði. Auk þess eru um 200 hjólastæði í húsinu en einnig eru 200 bílastæði í bílakjallara við meðferðarkjarnann fyrir sjúklinga og aðstandendur.

Ljósmynd/Eva Björk

Tæp sjö ár eru liðin síðan fyrsta skóflustungan að nýju sjúkrahóteli við Hringbraut var tekin. 

Þá hófust framkvæmdir við nýtt sjúkrahús í október 2018, og enn einn áfanginn við nýjan spítala hóst í september á síðasta ári þegar fyrsta skóflu­stung­an var tek­in að nýju rann­sókn­ar­húsi nýja Land­spít­al­ans við Hring­braut. 

„Það er ánægjulegt að enn bætast við byggingar sem eru á framkvæmdastigi hér í þessari mikilvægu uppbyggingu við nýjan Landspítala. Vel hefur tekist til hér við framkvæmdir á svæðinu og bílastæða – og tæknihúsið er áfangi á þessari vegferð að nýjar byggingar hér á svæðinu myndi eina heild,“ er haft eftir Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra í tilkynningu frá Nýja Landspítalanum. 

Kort af öllum byggingum nýs Landspítala. Bygging 1 er meðferðarkjarni …
Kort af öllum byggingum nýs Landspítala. Bygging 1 er meðferðarkjarni nýja spítalans, bygging 2 er nýtt rannsókanarhús, bygging 3 er nýtt sjúkrahótel, bygging 4 verður nýtt heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, bygging 5 er nýtt bílastæða- og tæknihús og bygging 6 er bílastæðakjallari undir Sóleyjartorgi. Kort/mbl.is

Jarðvinnu á rannsóknarhúsinu sem hófst í september sl. er nú lokið og hefst um leið nýr áfangi við jarðvinnu á bílastæða- og tæknihúsinu.  Af öllum sex áföngum nýja Landspítalans er vinna hafin við fjóra, en vinna við bílastæðakjallara undir Sóleyjartorgi og nýtt heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands er ekki hafin. 

mbl.is