Gæði þjónustunnar tilviljunum háð á landsbyggðinni

Bjarni Jónsson þignmaður VG, spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvernig …
Bjarni Jónsson þignmaður VG, spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvernig hann hyggist bregðast við stöðunni. Samsett mynd

„Búsetuöryggi má ekki vera tilviljunarkennt,“ segir Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, en hann hefur áhyggjur af skertu aðgengi íbúa á landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu.

Hann bendir á að í dag ráðist gæði heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni oft af því hvort byggðarlögin hafi alið af sér heilbrigðisstarfsfólk sem vilji flytja aftur heim.

Þá séu þeir sem fari í starfsnám út á land, líklegri til að setjast þar að. Heilbrigðisráðherra og innviðaráðherra verði að grípa inn í og skapa aukinn hvata fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að starfa á landsbyggðinni og tryggja þannig búsetuöryggi um land allt.

Vildi viðbrögð heilbrigðisráðherra

Bjarni ræddi um málefnið á Alþingi þann 23. mars og fylgdi því  svo eftir með fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um það hvernig hann hygðist bregðast við bráðum skorti á læknum og heilbrigðisstarfsfólki víða á landsbyggðinni. Þá spurði hann hvort til álita kæmi að grípa til sértækra aðgerða.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra svaraði á þann veg að gripið hefði verið til ýmissa aðgerða nú þegar. Þar nefnir hann sérstaklega samráðsvettvang sem komið var á fót í fyrra, svokallað landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu.

Frá stofnun landsráðs hafi mörg verkefni verið sett í gang. Unnið sé að gagnaöflun og greiningarvinnu um allt land. Tvö stærstu verkefnin um þessar mundir snúi að fjármögnun sérnáms til heilbrigðisstofnana og verkaskiptingu heilbrigðisstétta, svo að þekking þeirra nýtist sem best.

Ívilnanir tengdar námslánum 

Leiði umrædd greiningarvinna í ljós að grípa þurfi til sértækra aðgerða er varða mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks, koma slíkar aðgerðir til greina, að sögn Willum.  

Þá nefnir hann að mögulegt væri að nýta lög um menntasjóð námsmanna, sem heimila ráðherra að grípa til sérstakra ívilnana er lúta að endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og/eða búsetu á ákveðnum landsvæðum.

„Til að nýta sem best sérþekkingu fagstétta og jafna aðgang að þeim um allt land er einnig horft til samstarfs og uppbyggingar ýmissa teyma sérgreina eða í kringum sjúkdóma, sem jafnvel starfa á landsvísu. Uppbygging almennra og sérhæfðra geðheilsuteyma heilsugæslunnar er hluti af slíku fyrirkomulagi.“

Að lokum bendir Willum á að stefnt sé að bættu aðgengi með aukinni fjarheilbrigðisþjónustu um land allt. Þeirri vinnu miði vel áfram.

Tekið út úr byggðaáætlun

Í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 var lagt upp með að fjölga heilsugæslulæknum á landsbyggðinni með því að koma á tveggja ára námi sem myndi búa heilsugæslulækna undir starf í dreifbýli.

Að sögn ráðherra fór undirbúningur verkefnisins ekki eins og að var stefnt í upphafi. Því hafi aðgerðin aldrei farið af stað.

Var að lokum ákveðið að taka hana út úr nýrri byggðaáætlun.

„Mikilvægi heilsugæslulækna og heimilislækna á landsbyggðinni er hins vegar óumdeilt og áhugi lækna á heimilislækningum er mikill. Mikill skilningur er einnig á mikilvægi þess að tengja sérnám heimilislækna við heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Í haust er ráðgert að 94 sérnámslæknar verði í námi í heimilislækningum. Af þeim verða 36 í sérnámsstöðum á landsbyggðinni eða rúmlega 38% sérnámslæknanna. Verulegur hluti þessara 36 sérnámslækna kemur ýmist af landsbyggðinni eða er með sterk tengsl við hana, þannig að væntingar standa til þess að landsbyggðin muni njóta starfa þeirra áfram þegar námi lýkur.“

Svörin undirstriki ráðaleysi

Þetta fannst Bjarna miður. „Mér finnst svörin undirstrika mikið ráðaleysi. Ég vil sjá tillögur að beinskeyttum aðgerðum og það strax.“

Vel fjármagnaðar aðgerðir í þessum málaflokki ættu að hans mati að vera einn af hornsteinum byggðaáætlunarinnar.

mbl.is