Bjórskortur á norska þinginu

Kvörtun vegna bjórskorts á norska þinginu.
Kvörtun vegna bjórskorts á norska þinginu. mbl.is/Colourbox

Kvörtun hefur borist til mötuneytis norska þingsins, þar sem mótmælt er vöntun á skrældum kartöflum og bjór. Kvörtunin er nafnlaus og hefur vakið mikil viðbrögð norskra stjórnmálamanna.

Þingmaður hefur nú lagt fram kæru, þar sem hann segist hafa fengið nóg af því að ekki séu skrældar kartöflur og bjór á hverjum degi í mötuneytinu. Ekki er vitað hver sendi kvörtunina en í nafnlausu kvörtuninni segir „Ég veit að það eru nokkrir sem kvarta undan matnum á veitingastaðnum í þinginu, ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um þetta. Ég verð að taka undir margt af því sem sagt er, þótt matarboðið sé auðvitað ásættanlegt. Það eru færri á veitingastaðnum en áður, margir fara út að borða, aðrir eru með nesti. Það ætti að vera merki.“

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Af heimasíðu norska Stórþingsins

Þá setur hinn óánægði þingmaður upp fjögurra punkta lista yfir það sem viðkomandi er ekki ánægður með:

  • Bara soðnar kartöflur með hýði. Mörgum líkar ekki við soðnar kartöflur. En það er boðið upp á soðnar kartöflur á hverjum degi.
  • Það er of mikið af „hippa“ mat, nútímalegum með skrítnum afbrigðum af til dæmis grænmeti, meðlæti og sósum.
  • Hefðbundinn norskur matur er of sjaldgæfur.
  • Ekki er lengur seldur bjór / óáfengur bjór. Eða hann er mjög sjaldgæf sjón í ísskápnum.

Þingmaður ósammála

Andreas Sjalg Unneland, þingmaður og fulltrúi Sósíal­íska vinstri­flokks­ins í notendaráði, botnar ekkert í kvörtuninni en skilur að vísu að fullorðinslífið geti verið krefjandi.

Andreas segir „að komast inn á þing og flytja að heiman getur verið stór breyting fyrir marga. Sjálfur flutti ég að heiman fyrir mörgum árum. En ef fólk vantar ábendingar um hvernig eigi að þvo þvott, binda skóreimar eða afhýða kartöflur, þá er ég fús til að hjálpa.“

Hann segir jafnframt: „Í notendaráði situr einn fulltrúi fyrir hvern flokk á þinginu sem annast ýmis hversdagsleg innlegg og endurgjöf. Það má líkja því við stúdentaráð.“

Þannig mun fulltrúi frá hverjum flokki ákveða hvort það verði skrældar kartöflur og bjórtilboð í mötuneytinu. Unneland segir að fiskbúðingur hafi verið borinn fram síðast þegar hann notaði mötuneytið, eða Stórþingsveitingastaðinn (no. Stortingsrestauranten) eins og það heitir formlega.

Andreas Unneland
Andreas Unneland Ljósmynd/Vefsíða Sósíalíska vinstriflokksins.

„Ég held að fólk ætti ekki að hafa áhyggur af því að það vanti norskan hefðbundinn mat,“ segir hann og heldur áfram: „Ég er að mestu ánægður með mötuneytið. Við erum bæði með tertur og pítsur, en það er orðrómur um að Norðmenn sakni hvalkjöts í mötuneytinu." Árið 2019 seldust nákvæmlega 169 bjórflöskur í mötuneyti þingsins. 169 er einnig fjöldi þingmanna á þinginu.

Þingið bregst við

Stjórn þingsins hefur útbúið PowerPoint-kynningu vegna málsins, í þeim tilgangi að útskýra úrvalið og svara erindinu.

„Nafnlausi þingmaðurinn getur andað léttar, þar sem það verður aftur bjór í mötuneytinu. Bjórinn var tekinn út þegar takmarkanir voru settar á meðan á heimsfaraldri stóð. Fyrir heimsfaraldurinn fór svo lítill bjór að mikið af honum rann út. Boðið verður upp á bjór 17. maí og að öðru leyti verður úrvalið lagað eftir þörfum,“ segir í tilkynningu frá þinginu.

Svarið er þó annað við kartöflukröfunni. Í kynningu þingsins kemur fram að „ekki sé eðlilegt að bera fram kartöflur með sumum réttum og að kartöflur með hýði séu oft í betri gæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert