Sóttkví og einangrun gegn apabólu sem er líkleg til landsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir þarf enn og aftur að hafa hugan …
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir þarf enn og aftur að hafa hugan við sóttvarnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklegt er að apabóla berist til Íslands á næstunni og að notast verði við einangrun og sóttkví til að verjast henni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi frá sér nú í morgun.

Þórólfur segir að nauðsynlegt sé að vera sem best undirbúinn. Tekur hann fram að undirbúningurinn felist í að auka vitund almennings og heilbrigðisstarfsmanna um sjúkdóminn og tryggja hraða og örugga greiningu hans.

Ráð til almennings

Út frá faraldsfræðilegum upplýsingum telur Þórólfur ljóst að flest smit af sjúkdómnum hafi orðið á milli manna við náið samneyti eins og kynmök.

Biður Þórólfur því almenning að forðast náið samneyti og kynmök við ókunnuga á ferðalagi erlendis. Enn fremur tekur hann fram að ef einstaklingar sem hafa verið erlendis fá sjúkdómseinkenni sem líkist einkennum apabólu eigi þeir að einangra sig og hafa samband við heilsugæslu í gegnum síma.

Ef til sýkingar kemur bendir Þórólfur á mikilvægi þess að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum og forðast að deila fatnaði, handklæðum og rúmfötum með öðrum. Ættu smitaðir einstaklingar þar að auki að forðast alla samveru með dýrum.

Útbreiddari en tölurnar gefa til kynna

Nú hefur apabóla verið staðfest hjá 59 einstaklingum í níu löndum í Evrópu (Portúgal, Spáni, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi) og að auki hafa 10 verið grunaðir um að vera sýktir. Sýkingin hefur einnig greinst í löndum utan Evrópu eins og Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Ísrael. Segir Þórólfur að þetta bendi til þess að smitin séu í raun útbreiddari en tölur sýna.

Hér á landi eru ekki til bóluefni eða veirulyf gegn sýkingunni en unnið er að því að kanna gagnsemi ákveðinna veirulyfja og bóluefna gegn sjúkdómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert