Segja upp öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni

Læknavaktin hefur starfrækt símaráðgjöf frá árinu 2017. Nú stendur til …
Læknavaktin hefur starfrækt símaráðgjöf frá árinu 2017. Nú stendur til færa símaráðgjöfina yfir til upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl/Arnþór Birkisson

Til stendur að segja upp öllum hjúkrunarfræðingum á Læknavaktinni fyrir mánaðamót. Ákvörðun var tekin fyrir rúmlega ári síðan um að færa símaráðgjöf yfir til upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en því var frestað vegna álags og heimsfaraldursins. 

Elva Björk Ragnarsdóttir, fagstjóri hjúkrunar á Læknavaktinni, segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin hafi komið þeim í opna skjöldu fyrst um sinn. Hún segir að það þurfi 20 til 30 hjúkrunarfræðinga til að starfrækja símaráðgjöf Læknavaktarinnar eins og Læknavaktin hefur gert, en Heilsugæslan mun hafa móttökufulltrúa í framlínu sem mun meta það hvort fólk þurfi raunverulega að tala við hjúkrunarfræðing. Vísir greindi frá þessu fyrst.

„Hér hjá okkur þurfa 80 til 90% þeirra sem hringja inn þjónustu heilbrigðismenntaðs starfsfólks, þannig að þau þurfa aldeilis að bæta í mönnunina hjá sér,“ segir hún og bætir við að rúmlega 80% af veittri þjónustu sé veitt utan dagvinnutíma. Þannig þurfi heilsugæslan að öllum líkindum að bæta við sig starfsfólki. 

Hefur áhyggjur af landsbyggðinni

Elva hefur sérstakar áhyggjur af landsbyggðinni en hún telur fyrirhugaðar breytingar muni bitna á læknum sem staðsettir eru út á landi og fólkinu sem hefur verið að nýta sér þjónustu Læknavaktarinnar.

„Maður hefur náttúrlega sérstaklega áhyggjur af landsbyggðinni. Bæði er þetta mjög víða eina úrræðið sem þú hefur utan dagvinnutíma til þess að ná í heilbrigðismenntaðan aðila og við höfum gegnt því hlutverki hér síðan 2017 að sía í raun burtu þau símtöl sem ekki kalla á beint samband við vaktlækni. Vaktlæknar út á landi eru yfirleitt á sólarhringsvöktum og það var þannig að fólk hafði bara beinan aðgang að þessum læknum. Síðan 2017 höfum við verið að sía í burtu og reyna að draga úr álaginu á þessum læknum,“ segir hún, en hún kveðst hafa miklar áhyggjur af læknunum sem staðsettir eru út á landi sem og fólkinu sem þarfnast þessarar aðstoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert