Rektor MR útskrifar síðasta árganginn sinn

208 nýstúdentar útskrifuðust úr MR í dag.
208 nýstúdentar útskrifuðust úr MR í dag. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík

Alls brautskráðust 208 nýstúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík í Háskólabíó í dag. Athöfnin markaði ákveðin þáttaskil þar sem Elísabet Siemsen rektor lætur af störfum eftir fimm ára starf í MR og 45 ár innan framhaldsskólakerfisins.

Þar að auki lætur Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor skólans, af störfum sem kennari en samanlagður starfsaldur hans við MR telur nú 50 ár. 

Fyrsta Júbilantaballið frá heimsfaradri haldið í kvöld

Dúx 6. bekkjar að þessu sinni var Katrín Ósk Arnarsdóttir, nemandi á náttúrufræðibraut, sem útskrifaðist með aðaleinkunnina 9,88. Semidúx árgangsins var Hildur Gunnarsdóttir af eðlisfræðibraut, sem hlaut einkunnina 9.87. Alls hlaut 31 nemandi viðurkenningu fyrir ágætis einkunn á stúdentsprófi.

Nemendur, kennarar og skólastjórnendur höfðu í nógu að snúast i dag þar sem haldið verður á Júbilantaball í Vodafone-höllinni í kvöld, með alls 900 til 1.000 gestum. Afmælisstúdentar eru margir þetta árið og er á meðal þeirra Bogi Ágústsson, sem hélt ræðu fyrir hönd 50 ára stúdenta.

mbl.is