„Systir mín mætti sækja um starfið“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Setjum upp smá leikrit hérna. Ég er ráðherra og ég fæ umsóknir um stöðu skrifstofustjóra í ráðuneyti mínu. Þar er efst á lista systir mín og ég segi bara: Já, heyrðu frábært, hún er efst á lista í hæfnismati. Ég ræð hana bara. Frábært. Hverjir yrðu brjálaðir hérna? Allir? Ég býst alla vega við því.“

Þannig hófst ræða Píratans Björns Leví Gunnarssonar undir liðnum störf þingsins á Alþingi þar sem hann fjallaði um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Það væri gjörsamlega fáránlegt að ég væri að ráða systur mína í starf hjá ríkinu. Það væri galið. En ég segi náttúrlega: Heyrðu, þú máttir alveg sækja um, auðvitað — eins og það sé einhver vörn fyrir það að ég sé að ráða hana í starf. Já, systir mín mætti sækja um starfið en ég sem ráðherra mætti að sjálfsögðu ekki ráða hana. Þar er hagsmunaárekstur. Þetta þekkjum við öll. Þetta er algjörlega óumdeilt,“ sagði Björn Leví.

Gagnrýnir fjármálaráðherra

Hann sagði vandamálið í Íslandsbankamálinu hliðstætt. Þar hafi faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra keypt ríkiseignir og mátt það en að sögn Björns mátti ráðherra ekki selja honum þær. 

Það er rosalega skýrt. Þetta er nákvæmlega eins og að ráða í starf. En einhverra hluta vegna erum við enn þá með sama ráðherra og seldi fjölskyldumeðlimi ríkiseignir fyrir einhverjar stórkostlega undarlegar sakir. Við erum að bíða eftir niðurstöðum Ríkisendurskoðunar eða Fjármálaeftirlits sem ég veit ekki hvort skoða endilega þann hluta málsins,“ sagði Björn Leví og hélt áfram:

Ég hlakka rosalega til að sjá þá skýrslu og sjá hvort eitthvað sé talað um þennan hluta málsins. Af þeim dæmum sem við þekkjum um t.d. mannaráðningar eða skipan dómara eða eitthvað því um líkt — ef ég væri ráðherra að skipa einhvern dómara mætti ég að sjálfsögðu ekki skipa fjölskyldumeðlim. Ég yrði að stíga til hliðar. Ég væri vanhæfur. Augljóslega. Við erum öll sammála um það. Við hljótum öll að vera sammála um það og sjá ástæður þess að svo sé. En einhverra hluta vegna gleyma því allir þegar verið er að selja Íslandsbanka.“

mbl.is