Fagna umsóknum Finna og Svía um inngöngu í NATO

Utanríkismálanefnd hefur skilað af sér nefndaráliti um viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn.
Utanríkismálanefnd hefur skilað af sér nefndaráliti um viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Utanríkismálanefnd Alþingis hefur lagt til að samþykkt verði tillaga til þingsályktunar um staðfestingu viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Finnlands og Svíþjóðar.

Gerður er sérstakur viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn, þegar nýjum ríkjum er boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu. Finnar og Svíar sóttu um að gerast bandalagsríki þann 18. maí 2022.

Segir í nefndaráliti að í greinargerð með tillögu aðildarinnar komi fram að mikilvægt sé að mögulegt verði að fullgilda viðbótarsamninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu eins fljótt og kostur er. Því er farið fram á að Alþingi álykti um heimild ríkisstjórnar til fullgildingar áður en undirritun viðbótarsamninganna fer fram sem er frávik frá hefðbundinni málsmeðferð.

Aðildin muni auka öryggi og stöðugleika

Þá segir í álitinu að nefndin fagni umsóknum Finna og Svía og leggur áherslu á að aðild þeirra muni auka öryggi og stöðugleika í norðanverðri Evrópu á viðsjárverðum tímum.

„Enn fremur telur nefndin að aðild Finna og Svía að Atlantshafsbandalaginu muni styðja við áherslumál sem Íslendingar hafa talað fyrir innan bandalagsins, svo sem öryggi og varnir á Norður-Atlantshafi, loftslagsbreytingar og öryggi, friðsamlegar lausnir deilumála, afvopnunarmál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325, um konur, frið og öryggi.“

Þá leggur nefndin áherslu á að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að aðildarferli ríkjanna gangi eins hratt fyrir sig og mögulegt er. Það sé metnaðarmál norrænu NATO-ríkjanna að vera í hópi fyrstu ríkja til að staðfesta væntanlega viðbótarsamninga Finnlands og Svíþjóðar.

„Með því er nánum vinaþjóðum og frændum sýnd samstaða og um leið þrýst á önnur bandalagsríki að staðfesta samningana hratt og vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert