Ný ráðherranefnd um innflytjendur og flóttafólk

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir andrúmsloftið ágætt við ríkisstjórnarborðið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir andrúmsloftið ágætt við ríkisstjórnarborðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að setja á fót nýja ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks.

Hún mun koma til með að starfa tímabundið og fara yfir öll þau verkefni sem tilgreind eru í stjórnarsáttmálanum til þess að gera betur í þessum málum og tryggja að stjórnkerfið virki betur saman, að sögn Katrínar. 

Ágætur andi við ríkisstjórnarborðið

Borið hefur á því að undanförnu að ráðherrar gagnrýna vinnu hvors annars, á opinberum vettvangi.

Lilja Alfreðsdóttir viðskipta- og menningamálaráðherra gagnrýndi söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra gagnrýndi brottvísanir flóttafólks og nú hefur komið fram gagnrýni frá fjármálaráðuneytinu, við þinglega meðferð, á frumvarp það sem Lilja lagði fram og varðar endurgreiðslu á framleiðslukostnaði kvikmyndaverkefna hér á landi. 

Katrín segir samstarfið innan ríkisstjórnar ganga ágætlega. 

„Hér sitja þrír ólíkir flokkar við borðið, mörg mál kalla á samstarf ráðherra og ráðuneyta og því eðlilegt að það komi fram ólík sjónarmið, en það er bara ágætur andi við ríkisstjórnarborðið.“

mbl.is