Landhelgisgæslan reiðubúin ef þörf krefur

Bátur IMOCA sem er 60 feta (18,3 metrar) langur.
Bátur IMOCA sem er 60 feta (18,3 metrar) langur. AFP/Loic Venance

Landhelgisgæslan mun veita aðstoð ef þörf krefur í tengslum við siglingakeppnina Vendée Arctique sem hófst í Frakklandi fyrir þremur dögum að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Stór hluti keppninnar fer fram innan íslensks leitar- og björgunarsvæðis en siglt er frá Frakklandi og norður fyrir Ísland, yfir heimskautsbauginn og svo aftur til Frakklands. Áætluð vegalengd nemur um 5.630 kílómetra og er reiknað með að keppninni ljúki 16.-20. júní.

„Varðstjórar í stjórnstöð Gæslunnar, flugdeildin og aðgerðasvið vita af keppninni. Ef á þarf að halda mun Landhelgisgæslan veita aðstoð en stór hluti keppninnar fer fram innan íslenska leitar og björgunarsvæðisins sem er alls 1,9 milljónir ferkílómetra. Við munum bregðast við með þeim úrræðum sem Landhelgisgæslan hefur ef þörf krefur,“ segir Ásgeir.

Vökvakerfið bilaði

Keppt er á skútum í IMOCA flokki en siglingaleiðin í ár er að sögn Úlfars H. Hróbjartsson, framkvæmdastjóra Siglingasambands Íslands, tæknilega erfið sökum lægða og vindbreytinga sem einkenna leiðina.

25 keppendur taka þátt einsamlir og hefur nú þegar einn keppandi sagt sig úr keppni, en ungverski skipverjinn Szabolcs Weores neyddist til þess þegar vandamál gerðu vart vart um sig í vökvakerfi bátsins. Frakkinn Benjamin Ferré hefur verið í forystu undanfarna daga en Charlie Dalin fylgir fast á eftir samlanda sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert