Hækkun afurða ekki næg

Verð til bænda mun hækka en allur kostnaður hefur rokið …
Verð til bænda mun hækka en allur kostnaður hefur rokið upp. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er skref í rétta átt en þegar allt er tekið saman þá stöndum við sauðfjárbændur síst betur að vígi en síðasta haust,“ sagði Trausti Hjálmarsson, formaður Búgreinadeildar sauðfjárbænda, um boðaða 23% hækkun SS á afurðaverði til fjárbænda.

Ástæðan er miklar kostnaðarhækkanir landbúnaðarins. Trausti nefndi miklar hækkanir á áburðarverði, rúlluplasti, olíu og kjarnfóðri. Auk þess er fjármagnskostnaður bænda að aukast líkt og annarra. Hann bendir á að hækkunin sé reiknuð ofan á afurðaverð SS frá síðasta hausti.

„Miðað við þær forsendur sem við höfum núna, þessar góðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í framhaldi af starfi spretthópsins og boðaðar hækkanir á afurðaverði, er kostnaður sauðfjárbænda samt að aukast umfram hækkun tekna. Samkvæmt þessum forsendum mun framlegð sauðfjárbúa lækka á milli ára úr 52% í 43%,“ sagði Trausti.

Hann kvaðst taka undir orð Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að nú þyrftu afurðastöðvar, smásalar og neytendur að standa með íslenskum bændum.

„Við þurfum að sækja það stíft að fá meiri leiðréttingu á okkar afurðaverði,“ sagði Trausti. Hann kveðst vera bjartsýnn að eðlisfari og treysta því að til sé fólk sem vill taka slaginn með sauðfjárbændum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert