„Þetta hefur verið eins og villta vestrið“

Svens við Dalveg í Kópavogi er ein af þeim verslunum …
Svens við Dalveg í Kópavogi er ein af þeim verslunum sem að ný breyting á lögunum hefur áhrif á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins, segir nýsamþykkta breytingu á lögum um rafrettur sem felur í sér að nikótínvörur eru felldar undir lögin vera löngu tímabært. Hún segir breytinguna mikið fagnaðarefni fyrir hana og alla sem hafa unnið að forvarnarstörfum. Þó tekur hún fram að þetta sé aðeins byrjunin og að mikið meira megi gera. 

Kemur ekki í veg fyrir auglýsingar

Að mati Guðlaugar hefði verið hægt að gera talsvert meira. Hún segir til dæmis að það hefði verið frábært að sjá bann við bragðtegundum á nikótínpúðum. „Fyrst og fremst fögnum við því að það sé kominn þessi grunnur, það er það sem skiptir öllu máli,“ tekur Guðlaug fram og bendir á að það sé hægt að byggja ofan á þessum grunni.

Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins.
Guðlaug B. Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Aðsend

Spurð hvort að þetta muni koma til með að hafa þau áhrif að búðir eins Svens og aðrar sem selja nikótínvörur hætti að auglýsa segist Guðlaug ekki vera vongóð um það. 

„Við gerðum athugasemd við þessu í okkar umsögn við frumvarpinu. Það ætti auðvitað að taka á því að ákveðnir aðilar geti auglýst óhindrað bara af því að þeir eru með ákveðið vörumerki sem segir ekki beint nikótínpúðar þótt allir aðrir viti það,“ segir Guðlaug og vísar til auglýsingaherferðar Svens sem notar lukkudýrið Sven í allskonar aðstæðum til að auglýsa nikótínvörurnar sínar.

Segir hún það vera næsta skref í þessari löggjöf að koma á banni við auglýsingum sem auglýsa nikótínvörur án þess að sýna vöruna sjálfa. 

Ástæða til fagnaðar

„Við fögnum því auðvitað að þetta frumvarp hafi verið samþykkt því það hefur verið algjört reiðuleysi í kringum þetta og þetta hefur verið eins og villta vestrið í gegnum árin,“ segir Guðlaug. Að hennar mati hefur eftirlitsleysið með nikótínvörum verið stærsta ástæðan fyrir því að stór hópur ungs fólks noti nú nikótínpúða. 

Vonast hún til þess að þetta komi til með að hafa þau áhrif að draga muni úr nikótínnotkun ungmenna. Bendir hún á að notkun rafretta hafi minnkað töluvert eftir að lög um þau voru samþykkt árið 2018 en viðurkennir þó að kannski hafi nikótínpúðarnir komið í stað þeirra.

Að mati Guðlaugar ætti þessi breyting á lögunum einnig að vera fagnaðarerindi fyrir söluaðilann. „Núna hefur hann rammann til að fara eftir og síðan vonar maður bara að eftirlitið verði nægilegt til að börn og ungmenni komist ekki upp með að versla þetta.“

mbl.is