Netsvindlafaraldur náði Brynju og Dóru

Brynja Baldursdóttir og Dóra Einarsdóttir.
Brynja Baldursdóttir og Dóra Einarsdóttir. Samsett mynd

Brynja Baldursdóttir,  myndlistakona og hönnuður, varð fyrir tölvuárás tölvuþrjóta, sem virðast ekki þurfa meira en símanúmer til þess að taka yfir samfélagsmiðla viðkomandi og gera árás á bankareikninga þeirra. Dóra Einarsdóttir búningahönnuður varð einnig fyrir barðinu á þeim. 

Brynja hafði fengið skilaboð frá annarri listakonu á föstudag þar sem hún var beðin um að senda símanúmerið sitt svo þær gætu náð saman símleiðis, en þær voru báðar að fara að sýna verkin sín á sömu listasýningu um helgina. 

Fim og fumlaus skilaboð

Brynja svaraði því um hæl og áður en hún vissi af var búið að taka yfir Facebook síðu hennar og fólk á vinalista hennar farið að fá frá henni allskyns skilaboð. Brynja segir skilaboðin ekki vera stöðluð og íslenskan sé óaðfinnanleg. Þá hafi tölvuþrjótarnir greinilega svör á reiðum höndum við ólíkum viðbrögðum móttakenda. 

„Fólk fór að hringja í mig því það var að fá svo mikið af skilaboðum frá mér, einn sem þekkir mig ekki nægilega vel til að átta sig á því að ég myndi ekki senda þetta sjálf, gaf upp sínar upplýsingar og svo kemst hann að því að það er bara búið að tæma bankareikningana hans.“

Mikilvægt að vara fólk við

Brynja lét rakleitt loka bankareikningum sínum þegar hún áttaði sig á því sem væri að ske, og varð því ekki fyrir fjárhagslegum skaða sjálf. Hún hefur samt áhyggjur af því hve hratt þessi tölvuárás virðist vera að breiðast út og þykir því mikilvægt að vara fólk við.

Brynja leitaði til manns sem er vel að sér í tölvumálum og áhugamaður um tölvusvindl. Sá tjáði henni að hér væri sennilega um skipulagða glæpastarfsemi að ræða, enda væri tölvuþrjótarnir óvenjufljótir að taka peninginn út af reikningum. 

Boðið að taka þátt í leik

„Hæ Dóra, hvert er símanúmerið þitt.“ Svona hljómuðu þau skilaboð sem Dóra fékk frá reikningi Brynju í gær. Hún svaraði þá með því að senda til baka símanúmerið sitt. 

„Svo komu skilaboð þar sem hún spurði hvort mig langaði að taka þátt í leik, sem þau væru nokkur að taka þátt í. Ég var beðin um að gefa upp debit og kredit kortin mín og fékk sendar myndir af bæði fram- og bakhlið kortsins hennar,“ segir Dóra. Þar að auki fékk hún myndir að kortunum sínum.

Henni þótti þessi hegðun sérkennileg og ákvað að hringja í vinkonu sína og fá á hreint hvað henni gengi til. Þá tjáði Brynja henni að reikningurinn hennar hefði verið hakkaður. 

Á þriðja tug tilrauna

Því næst bárust ný skilaboð frá hinni meintu Brynju þar sem hún bað Dóru að senda sér heimilisfangið sitt. Dóra svaraði því ekki en hringdi í lögregluna og neyðarsíma kortafyrirtækisins þar sem hún óskaði eftir að kortunum hennar yrði lokað. 

Í ljós kom að nú þegar höfðu verið gerðar á þriðja tug tilrauna til að hakka kortareikninginn hennar, þó hún hefði ekki veitt neinar frekari upplýsingar en símanúmerið sitt. 

Nú kemst Dóra hvorki inn á Facebook né Instagram reikninginn sinn, en vinir hennar hafa verið að fá sambærileg skilaboð frá henni. 

Þegar hún ætlaði að endurstilla reikninginn sinn var búið að breyta netfanginu að baki honum svo nú er það halldan1@hotmail.com. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert