Hjóluðu yfir Bandaríkin og hrepptu silfrið

Félagarnir hjóla af stað.
Félagarnir hjóla af stað. RAAM Media/Jen Magnuson

Lið Íslenskrar erfðagreiningar hafnaði í öðru sæti í átta manna liðakeppni bandarísku hjólreiðakeppninnar Race Across America á föstudag. Liðið kom heim í dag og er himinlifandi með árangurinn að sögn Páls Gestssonar, eins liðsmanna.

Liðið hefur tekið þátt í Cyclothoninu hér heima en vildi prófa eitthvað nýtt. Þeir skráðu sig því fyrir sumarið 2021, sem síðan var fellt niður. Þeir hafa því verið að æfa í rúm tvö ár.

Almennt þótti vel sloppið að fá þriggja tíma svefn en …
Almennt þótti vel sloppið að fá þriggja tíma svefn en þeir ferðuðust í smárútum milli hjólavaktanna. Ljósmynd/Facebook

Þvert yfir Bandaríkin

Hjólreiðakapparnir, sem hófu för sína á Vesturströnd Bandaríkjanna í bænum Oceanside rétt fyrir norðan San Diego, hjóluðu nánast fimm þúsund kílómetra í gegn um tólf ríki frá vesturströnd Bandaríkjanna til Annapolis í Maryland, norðan við Washington-borg.

„Við kláruðum þar núna bara á föstudaginn var. Vorum þar yfir helgina og komum síðan heim í morgun,“ segir Páll í samtali við mbl.is, en hann var strax mættur til vinnu í Vatnsmýrina.

„Við erum átta þannig þetta eru svona 625 kílómetrar á mann á sex dögum. Við erum alveg passlega grillaðir eftir þetta,“ segir Páll en þeir sváfu í mesta lagi þrjá tíma á nóttu á meðan ferðinni stóð.

Vel sloppið að sofa í þrjá tíma

Spurður hvort þeim hafi ekki þótt örlítið erfitt að hjóla svo mikið á eins litlum svefni þvertekur hann fyrir það.

„Það þótti mjög gott. Það fór alveg niður í núll þegar það var erfitt að fá gistingu og skipulagningin í smá í henglum. En almennt þá var það bara vel sloppið að fá þriggja tíma svefn.“

Þeir skiptu átta manna liðinu í tvö lið þar sem fjórir voru að á meðan fjórir hvíldu, hvort lið með sína tólf tíma hjólavakt. „Svo fór bara megnið af þessum tólf tímum í að keyra og fylgja liðinu sem var að hjóla,“ segir hann en liðið keyrði um á þremur smárútum og sex bílstjórar tóku þátt með þeim.

Hjólreiðakappar ásamt fjórum ökuþóranna, þegar lagt var í hann frá …
Hjólreiðakappar ásamt fjórum ökuþóranna, þegar lagt var í hann frá ÍE. Frá vinstri: Hjólarar Frosti, Garðar, Ólafur, Daníel, Viðar, Gísli, Arnaldur, Páll. Bílstjórar: Bjarni, Gunnar, Valgeir, Þorvaldur. Á myndina vantar Pétur Einarsson og Árna Árnason Ljósmynd/Facebook

Skildu stóru liðin eftir

Liðið lenti, sem áður segir, í öðru sæti og því aðeins eitt lið á undan þeim, sigurliðið Team Beamer. „Þeir voru bara mættir til þess að slá heimsmetið,“ segir Páll og bætir við að þeir hafi verið um sólarhring á undan.

„Það var töluverður munur á holningunni á okkur og þeim,“ bætir hann við og segir að liðið, líkt og mörg önnur í keppninni, hafi verið með risa-batterí á bak við sig og mikið fjármagn.

Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt lið tekur þátt í keppninni að sögn Páls. Flest hin liðin voru frá Bandaríkjunum en þó nokkur hvaðanæva að úr heiminum.

„Þannig þetta kom mjög víða að. Og allt frá því að vera bara topp-íþróttamenn, fremstir á sínu sviði, yfir í að vera bara venjulegt fólk að safna fyrir góðgerðarmál og taka þetta á mun lengri tíma.

En flestir eru komnir þarna í toppformi og að reyna að vinna,“ segir Páll og bætir við að margir hafi verið með mikið fylgdarlið og augljóslega mikið fjármagn á bak við sig.

Og síðan vinna Íslendingarnir bara.

Páll hlær. „Já, skilja marga eftir sem eru með mikið [fjármagn] á bak við sig og risastóran hóp.“

Enginn tími fyrir slys

Síðasta daginn lenti Páll í því óhappi að verða fyrir bíl.

„Ég var að byrja síðustu vaktina og er kannski búinn að hjóla í tvo tíma. Kem þarna inn í einhvern bæinn og hjóla yfir umferðarljós á grænu ljósi.“ Þar sá hann bíl sem var að fara að taka vinstri-beygju þvert fyrir hann.

„Ég lít upp og sé græna ljósið og fer af stað svo þegar ég kíki aftur niður þá er hann bara búinn að taka beygjuna.

Ég náði ekki að snerta bremsuna held ég. Dúndraði beint á hann og flaug yfir hann.“ Braut Páll þar handarbein og krambúleraðist allur. Liðið hafði aftur á móti engan tíma fyrir neitt svona slys. 

Handleggsbrot í Accident

„Við bara handsöluðum við karlinn að hann myndi gera þetta aldrei aftur, líta betur í kring um sig næst. Svo var mér bara dröslað aftur upp í bílinn.“

Páli var hent út á næsta spítala þar sem hann var gifsaður. Náði hann síðan með naumindum að ná þeim aftur og hjóla með þeim í mark.

Á leiðinni á spítalann varð fyndin tilviljun: „Við erum að keyra og sé ég þá skilti þar sem stendur „Welcome to Accident“.

Skiltið tók á móti Páli eftir slysið.
Skiltið tók á móti Páli eftir slysið. Ljósmynd/Facebook

Kári kom næstum með

„Við fáum mjög mikinn stuðning hér og áhuga,“ segir Páll um það hvað Íslenskri erfðagreiningu þykir um ævintýri hópsins.

„Kári er alveg mjög ánægður með þetta en reyndar kominn með nóg af þessu. Vill bara að við förum að dröslast í vinnuna aftur,“ segir hann glettinn.

Þið hafið ekki bara viljað bjóða honum með?

„Jú hann talaði alveg um það að koma með og vera einn af bílstjórunum. Hann var nú eitthvað upptekinn en við vorum næstum búnir að plata hann með sem bílstjóra.“

Páll var í góðum höndum.
Páll var í góðum höndum. Ljósmynd/Facebook
Liðsmynd.
Liðsmynd. Ljósmynd/Jón Gústafsson
Liðsfélagarnir átta við verðlaunaafhendinguna.
Liðsfélagarnir átta við verðlaunaafhendinguna. Ljósmynd/Facebook
mbl.is