Tvær glænýjar lyftur rísa í Bláfjöllum

Fyrstu staurarnir í nýju Gosalyftunni á Suðursvæðinu í Bláfjöllum fóru …
Fyrstu staurarnir í nýju Gosalyftunni á Suðursvæðinu í Bláfjöllum fóru upp í dag. mbl.is/Arnþór

Í dag voru reistir fyrstu staurarnir í nýrri stólalyftu á suðursvæðinu í Bláfjöllum, en framkvæmdir við aðra nýja stólalyftu á heimatorfunni eru einnig í gangi. Búist er við því að fyrri lyftan, nýi Gosinn, komist í gagnið í haust, en vonast er til þess að sú síðari, ný Drottning, verði tilbúin í vetur, en í síðasta lagi næsta sumar.

Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, segir í samtali við mbl.is að allri jarðvinnu við báðar lyfturnar sé lokið. Þá sé nánast öll steypuvinna búin við Gosann og byrjað sé að steypa fyrir Drottningunni.

Bæði Gosinn og Drottningin eru glænýjar.
Bæði Gosinn og Drottningin eru glænýjar. mbl.is/Arnþór

Báðar lyfturnar verða á svipuðum stað og fyrirrennararnir, en í tilfelli Gosans verður endastöðin nokkuð hærra upp og Drottningin mun fara upp Kóngsgilið á annan topp en þann sem núverandi lyfta endar á.

Búið er að taka hluta af gamla Gosanum niður og gamla Drottningin verður tekin niður næsta sumar.

„Þá yrði aldrei röð aftur í Bláfjöllum“

Einar segir að mikil spenna sé fyrir nýju lyftunum. „Þær eru báðar hraðskreiðar og nýjar. Hvor lyfta er með flutningsgetu upp á 2.400 manns á klst, eða eins og gamli Kóngurinn,“ segir hann. Báðar lyfturnar verða fjögurra sæta og verða stólarnir geymdir inn í húsi á nóttunni til að verja bæði stóla og vírinn.

Allri jarðvegsvinnu við lyfturnar er lokið og nú á að …
Allri jarðvegsvinnu við lyfturnar er lokið og nú á að reisa staurana og vinna áfram að stöðvarhúsunum. mbl.is/Arnþór

Þegar mbl.is náði tali af Einari var fyrsti staurinn í Gosanum kominn upp og unnið var að því að setja næstu tvo upp.

Verklok við Gosann eru áformuð í lok október, en Einar segir að afhending Drottningarinnar verði annað hvort í vetur eða næsta sumar. Það fari eftir veðri í haust.

„Vonandi verða möstur og hús komin upp í haust og vonandi fáum við hana í gagnið í desember, janúar eða febrúar. Það er það sem maður vonar mest og það væri alveg frábært að geta verið með tvær nýjar næsta vetur. Þá yrði aldrei röð aftur í Bláfjöllum,“ segir Einar glaður í bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert