Rannsókn kynferðisbrota krefjist ekki kæru

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Vítalía Lazareva.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Vítalía Lazareva.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að almennt sé það í samræmi við lög um meðferð sakamála, að þegar lögregla fái vitneskju um refsiverða háttsemi eða grun um slíkt, þá hefji hún rannsókn.

Miklar vendingar hafa átt sér stað undanfarna daga í máli Vítalíu Lazarevu, sem í ársbyrjun greindi frá því í hlaðvarpinu Eigin konur hvernig þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson hefðu brotið kynferðislega á henni í heitum potti við sumarbústað í október 2020.

Ekki mætt í skýrslutöku enn þá

Mennirnir voru vinir Arnars Grant sem var í ástarsambandi við Vítalíu á þeim tíma. Síðar sagði hún annan vin Arnars, Loga Bergmann, hafa brotið á sér í golfferð.

Vítalía lagði fram bréf til kæru­mót­töku kyn­ferðis­brota í mars hjá lög­regl­unni. Hún kvaðst á Twitter í gær alltaf hafa haldið að slíkt þýddi „eitt­hvað“ en rétt sé að hún hafi ekki mætt í skýrslu­töku enn þá.

Þetta kom í kjölfar þeirra tíðinda að þremenningarnir í pottinum væru búnir að kæra Arnar og Vítalíu fyr­ir til­raun til fjár­kúg­un­ar, hót­an­ir og brot gegn friðhelgi einka­lífs­ins, en jafnframt sögðust þeir hafa fengið staðfestingu á að engin kæra gegn þeim lægi fyrir í LÖKE, gagnagrunni lögreglunnar. 

Lögreglu beri að rannsaka ef upplýsingar liggja fyrir

Grímur segir að kynferðisbrot af öllu tagi krefjist þess ekki að sá sem misgert er gegn kæri málið, heldur beri lögreglunni að bregðast við ef upplýsingar um slík brot liggja fyrir.

„Almennt séð þegar að slíkt liggur fyrir hjá lögreglu þá lítum við á það sem grundvöll rannsókna,“ segir hann.

„Það á við í öllum málum. Ekkert slíkt mál er þannig að það krefjist kæru af hálfu þess sem misgert er við. Það kannski blasir við að upplýsingar sem kynferðisbrot byggja á, koma yfirleitt fram í yfirheyrslum.“

Samkomulagsatriði hvenær skýrsla er tekin

Spurður hvað þolendur þurfa almennt að gera til að koma á framfæri upplýsingum um kynferðisbrot til lögreglunnar, svo að unnt sé að hefja rannsókn, segir hann:

„Ferlið er raunverulega þannig að ef einstaklingur vill koma á framfæri upplýsingum um þessa refsiverðu háttsemi þá lætur hann okkur vita og við hefjum rannsókn eftir atvikum. Einn grundvöllur þess er að fá skýrslu af meintum brotaþola,“ segir Grímur.

Um samkomulagsatriði sé að ræða, hvenær skýrsla sé tekin af brotaþola.

mbl.is