Snjór og sumar í dag

Veðrið seinnipartinn í dag.
Veðrið seinnipartinn í dag. mbl.is/skjáskot

Búast má við alls kyns veðri í dag og mismunandi eftir landshlutum samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Spáð er snjó í fjöllum á norðaustanverðu landinu en sólríkt verður á köflum sunnanlands.

Kemur fram að lægð austan fyrir land stjórni veðrinu hjá okkur í dag. Norðvestan hvassviðri verður fyrir austan, með hvössum vindhviðum við fjöll og talsverð eða mikil rigning um landið norðaustanvert en þar verður hiti um 4-9 stig.

„Svalt er í veðri á þeim slóðum og má búast við að fjöllin setji á sig hvíta húfu,“ stendur í hugleiðingunum.

Fallegur sumardagur

Hins vegar er spáð mun hlýrra veðri sunnanlands, 8-16 stiga hita og verður þar sólríkt á köflum.

„Lægðin fjarlægist landið þegar líður á morgundaginn og dregur því smám saman úr vindi og úrkomu, en sunnan- og vestanlands má búast við fallegum sumardegi.“

Í lok dags má búast við dálítilli vætu í flestum landshlutum, en þurrt verður með köflum austantil á landinu.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is