Fólk fann styrk í hvert öðru í Jónshúsi

Jónshús er við Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn.
Jónshús er við Øster Voldgade 12 í Kaupmannahöfn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það var falleg stund í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag þegar Íslendingar komu saman og fundu styrk í hver öðrum með því að deila upplifunum sínum af atburðum gærdagsins. Þetta segir séra Sigfús Kristjánsson í samtali við mbl.is um samkomu Íslendinga í opnu húsi í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn bauð upp á opið hús fyrir Íslendinga vegna skotárásarinnar í verslunarmiðstöðinni Field's í borginni í gær.

Opna húsið stóð frá tvö til sex að staðartíma í Kaupmannahöfn í dag og var séra Sigfús þar fólki til stuðnings. Séra Sigfús er prestur í Íslenska söfnuðinum í Danmörku og vinnur þar að auki fyrir sendiráð Íslands í Danmörku.

Blanda af áfalli og ró

Að sögn Sigfúsar mættu á bilinu 20 til 30 manns og segir hann að fólk hafi fundið mikinn styrk í hvert öðru. „Fólk talaði hvort við annað aðallega og sumir töluðu við mig. Þetta var aðallega hugsað þannig að fólk gæti hlotið styrk hvert af öðru,“ segir Sigfús um samkomuna sem honum fannst falleg stund.

Hann segir að fólkið sem mætti hafi annað hvort verið inn í verslunarmiðstöðinni Field's eða við hana þegar að skotárásin átti sér stað og fólki því skiljanlega brugðið. Þeir sem mættu vörðu dágóðum tíma í Jónshúsi að sögn Sigfúsar.

Spurður hvernig ásigkomulagi fólk hafi verið í þegar það kom á fundinn segir Sigfús að um hafi verið að ræða blöndu af áfalli og ró. Hann segir að fólki hafi sýnilega verið mjög brugðið og því hafi það hjálpað því mikið að geta sagt frá sinni reynslu og heyra frá öðrum líka. 

mbl.is