„Varhugaverð þróun“ innviðagjalda

Hrunamannahreppur ákvað að áfrýja ekki dómnum.
Hrunamannahreppur ákvað að áfrýja ekki dómnum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mig grunar að í seinni tíð hafi færst í aukana að sveitarfélög geri einkaréttarlega samninga um gjöld og skatta, þrátt fyrir að tekjustofnar sveitarfélaga eigi að meginstefnu að byggjast á heimild í lögum,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður konu sem var fyrr í mánuðinum sýknuð af kröfum Hrunamannahrepps.

Konan greiddi ekki umsamið gjald þegar malbika átti í nágrenni við heimili hennar og stefndi sveitarfélagið henni í kjölfarið. Dómurinn sló því föstu að gjaldið, sem var lagt á í samningi milli konunnar og sveitarfélagsins en endurspeglaði gatnagerðargjald, hafi verið ólögmætt og var sveitarfélaginu því gert að greiða henni 1,2 milljónir í málskostnað.

„Niðurstaðan er ánægjuleg og staðfestir að sveitarfélögum eru sett ákveðin mörk þegar það kemur að öflun tekna. Þannig er í dóminum skýrlega kveðið á um að sveitarfélaginu hafi verið óheimilt að klæða gjaldtöku, sem varðaði lögbundið verkefni sveitarfélagsins, í búning einkaréttarlegs samnings,“ segir Ingvar. 

Ingvar Smári Birgisson lögmaður.
Ingvar Smári Birgisson lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Hægt að semja sig frá kærurétti

Líkt og fyrr segir grunar Ingvar að sveitarfélög geri nú í auknum mæli einkaréttarlega samninga um gjöld og skatta. 

„Sé það rétt þá er það varhugaverð þróun sem kann að skerða réttaröryggi almennings. Þannig kann t.d. að vera að fólk semji frá sér kærurétt til æðra stjórnvalds og minna gagnsæi ríkir um gjaldtökuna en ella,“ segir Ingvar í lokin.

Nýverið féll dómur Hæstaréttar í máli um innviðagjald í samningi, þar sem Reykjavíkurborg hafði betur gegn verktökum, sem telja nú óvissu ríkja um þessi mál.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/06/03/alger_ovissa_vegna_doms_um_innvidagjald/

mbl.is