„Ekki á framboðsbuxum“ þrátt fyrir meðbyr

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, ræddi við mbl.is í Hafnarhúsinu …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, ræddi við mbl.is í Hafnarhúsinu í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég er ekki á framboðsbuxum og er ekki að spá í þau spil,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur spurður um hvort hann sé að íhuga að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar í haust. 

Eins mbl.is hefur greint frá mun Logi Einarsson ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í Samfylkingunni á landsfundinum í haust. Síðan þá hafa Dagur og Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, hvað helst verið nefnd í tengslum við framboð til formennsku í Samfylkingunni. 

Kristrún sagði í samtali við mbl.is í lok júní að hún væri að íhuga að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar og að hún ætlaði að nota sumarið í samtal við grasrót flokksins. 

Dagur segist hins vegar ekki hafa íhugað framboð til formanns hingað til. „Það er ekkert framboðssnið á mér.“

Finnur fyrir meðbyr

Dagur viðurkennir þó að hafa fundið fyrir þó nokkurri hvatningu til að sækjast eftir formennskunni undanfarið. „Í þessu stutta sumarfríi sem ég var í voru ýmsir sem höfðu samband og vildu fá að ræða þetta,“ segir Dagur en hann er nýlega kominn heim frá útlöndum þar sem hann fagnaði 50 ára afmæli sínu með fjölskyldunni.

Spurður hvort að hann hafi fundið fyrir meðbyr undanfarið svarar Dagur því játandi. Bætir hann þá við að honum þyki vænt um það.

„Ég mun auðvitað heyra í fólki og heyra hvað það er að spá en ég hef ekki verið á þeim buxunum að fara í framboð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert