Meiri fjölgun tilkynninga um eggvopn en skotvopn

Vopnatilkynningum til lögreglu hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum. Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild ríkislögreglustjóra, segir að tilkynningum vegna eggvopna hafi fjölgað meira en tilkynningum vegna skotvopna, þó að þeim hafi vissulega fjölgað sömuleiðis.

„Það er vel haldið utan um þessa tölfræði hjá sérsveitinni okkar því að hún er nú yfirleitt alltaf kölluð til þegar það koma vopnatilkynningar. Við sjáum það á þessari tölfræði að það hefur verið stöðug aukning síðastliðin fimm, sex ár,“ segir Runólfur. 

Ekki neitt ákveðið vopn

Runólfur er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem aukinn vopnaburður á Íslandi er ræddur, vopnaburður lögreglu, skipulag og viðbragð sérsveitarinnar og margt fleira. 

Runólfur segir að ekki sé hægt að benda á ákveðið vopn sem notast hefur verið við með auknu byssuofbeldi hér á landi. Bæði hafa skammbyssur, þrívíddarprentaðar byssur og hefðbundin veiðivopn komið á borð lögreglu undanfarið. 

Þáttinn með Runólfi má sjá í heild sinni má sjá hér.

mbl.is