Örþrifaráð að kalla fólk inn úr sumarleyfum

Hildigunnur Svavarsdóttir.
Hildigunnur Svavarsdóttir. mbl.is/Margrét Þóra

„Þetta er það síðasta sem að við viljum gera, að grípa til þess að kalla fólk inn úr sumarleyfum. Fólk þarf að hvíla sig, sérstaklega í þessum aðstæðum núna – fólk er þreytt og lúið fyrir,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Fram kom í pistli frá henni sem birtur var í dag að þurft hefur að grípa til þess örþrifaráðs að kalla starfsmenn til vinnu úr sumarleyfum vegna mikillar manneklu. 

Allar legudeildir fullar

Þar segir einnig að álagið stafi af innlögnum vegna Covid-19 og aukins álags vegna fjölda ferðamanna og ýmissa annarra sjúkdóma sem krefjast einangrunar sjúklinga. 

Allar legudeildir á Sjúkrahúsinu á Akureyri eru yfirfullar þrátt fyrir að dregið hefur verið úr valkvæðri þjónustu. 

Hildigunnur segir plássleysi einnig hrjá starfsemina. „Við erum með öll rúm full inn á þessum legudeildum okkar og svo kemur mannekla ofan á það. Okkur vantar fleira fólk til að sinna þeim sem fyrir eru.“ Hún tekur þó fram að ekki verði ráðist í gangalagningar. 

Einn á gjörgæslu með Covid-19

Í dag eru fjórir sem liggja inni á sjúkrahúsinu með Covid-19, þar af einn á gjörgæslu í öndunarvél. Hildigunnur segir að innlagnir vegna kórónuveirunnar sveiflist nokkuð og hafi farið hæst í ellefu í núverandi bylgju, fyrir aðeins nokkrum dögum. 

„Þetta er mjög þungt ástand hjá okkur. Sérstaklega þar sem við náðum ekki að ráða inn í allar sumarafleysingar og það eru veikindi – starfsfólkið okkar fær Covid-19 eins og aðrir. Svo er ekki ráðið í allar stöður hjá okkur. Þetta telst allt til og svo er þol gagnvart útköllum orðið mikið minna. Það er erfitt að vera alltaf að fá símhringingu um að koma á aukavakt,“ segir Hildigunnur. 

Fram kemur í pistli Hildigunnar að búast megi við því að áfram muni reynast erfitt að manna á sjúkrahúsinu, en hún segist vona innilega að ekki komi til þess að áfram þurft að kalla fólk inn úr sumarleyfum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert