Segir gjaldtöku koma illa við Fjarðabyggð

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. mbl.is

„Það er náttúrulega ljóst að fyrirhuguð gjaldtaka myndi hafa það í för með sér, og miðað við að gjald sé tekið af eldsneyti bifreiða, að við værum farin að tvískattleggja þá íbúa sem í mínu sveitarfélagi búa,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur boðað gjaldtöku í öllum jarðgöngum landsins til að standa undir rekstri þeirra og fjármögnun. Slík gjaldtaka muni ekki koma sér vel fyrir íbúa Fjarðabyggðar þar sem sveitarfélagið sé tengt tveimur jarðgöngum.

„Okkar íbúar sækja atvinnu á milli hverfa, ýmsa þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og menntun í framhaldsskóla, þannig að menn eru að fara jafnvel í gegnum tvö jarðgöng daglega,“ segir Jón Björn.

Ráðuneytið gæti jafnræðis

„Þó að menn séu auðvitað að reyna að hverfa frá jarðefnaeldsneytisbifreiðum erum við ekki komin á þann stað ennþá, kannski hvað síst á landsbyggðinni, að fara í tvöfalda skattlagningu, það getur ekki gengið.

Við viljum auðvitað sjá frumvarpið og taka þá umræðu um það og við viljum að ráðuneytið skýri það svolítið hvernig það sjái fyrir sér gjaldtöku af umferð og það sé þá gætt jafnræðis yfir landið allt, en ekki að jarðgöng verði tekin sérstaklega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka