Rannsaka jarðveg vegna borgarlínunnar

Niðurstöður rannsóknanna geta sagt til um hvort skipta þurfi um …
Niðurstöður rannsóknanna geta sagt til um hvort skipta þurfi um jarðveg. Ljósmynd/Vegagerðin

Vegagerðin hefur undanfarið unnið að jarðvegsrannsóknum og burðarþolsmælingum á höfuðborgarsvæðinu á þeim stöðum þar sem sérrými fyrstu lotu borgarlínunnar mun liggja. Þá hafa verið gerðar jarðsjármælingar til að kanna hvað leynist undir yfirborðinu, svo sem lagnir og eldri mannvirki.

Mikilvægt sé að finna hvar komið er niður á fastan botn í jarðlögunum til að geta komið í veg fyrir að jarðvegurinn fari að síga síðar meir, að því er segir á vef Vegagerðarinnar. Niðurstöður rannsóknanna geta einnig sagt til um hvort skipta þurfi um jarðveg.

Mikilvægt fyrir heildarmyndina

Veggreinir hefur verið notaður til þess að framkvæma jarðsjármælingar.

„Við höfum keyrt veggreininn á nokkrum köflum fyrstu lotu borgarlínunnar og meðal annars jarðsjármælt til að kanna hvort til dæmis lagnir eða fornar minjar leynist þar undir. Gögnin úr veggreininum eru send til Finnlands þar sem unnið er nánar úr þeim,“ er haft eftir Sverri Örvari Sverrissyni, verkefnastjóra á Mannvirkjasviði Vegagerðarinnar.

„Allar þessar mælingar eru mikilvægar til að fá góða heildarmynd af því sem liggur undir yfirborðinu. Með þessu móti fást mjög góð gögn fyrir hönnuði að vinna úr en borgarlínan er jarðtæknilega séð afar viðamikið verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert