Niðurlægður af kennaranum fyrir framan bekkinn

Gunnar Ingi Ingvarsson.
Gunnar Ingi Ingvarsson. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Ingi Ingvarsson, fyrrum nemandi í Víðistaðaskóla, kveðst ekki hafa getað treyst kennurum í grunnskóla eftir að hafa verið niðurlægður af stærðfræðikennara í unglingadeild sem gerði grín að þyngd hans fyrir framan aðra nemendur. „Fat boy!“ skrifaði kennarinn upp á töflu undir nafn Gunnars og teiknaði ör sem benti á tölustafi sem táknuðu þyngd hans.

Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla, segir að brugðist hafi verið við málinu á sínum tíma og að afsökunarbeiðni hafi verið lögð fram. Þá kveðst hún ekki hafa fengið aðrar kvartanir vegna hegðunar kennarans í sinni tíð sem skólastjóri.

Gunnar Ingi telur afsökunarbeiðnina þó ekki nóg og vill að kennaranum sé sagt upp störfum þótt nokkur ár hafi liðið. Hann hafi verið lagður í einelti í skólanum af samnemendum sínum og að framkoma kennarans hafi verið ólíðandi. Í Víðistaðaskóla hafi nemendur fengið þau skilaboð að hafa ætti samband við kennara ef eitthvað bjátaði á. Hann hefði ekki treyst sér til þess eftir þetta atvik.

Á betri stað í dag

Gunnar Ingi, sem nú er 19 ára gamall og leggur stund á nám í rafvirkjun í Tæknskólanum, segir eineltið sem hann hafi orðið fyrir í grunnskóla enn hafa mikil áhrif á sig. 

Í dag kveðst hann vera á mun betri stað og stundar m.a. kraftlyftingar en er þó enn óöruggur með sjálfan sig og vill eingöngu ganga um í hettupeysum.

Að sögn Gunnars Inga hefur hann alltaf átt í erfiðleikum með að tjá sig um eineltið sem hann varð fyrir í Víðistaðaskóla en eftir að hann byrjaði á samfélagsmiðlinum TikTok, hefur hann átt auðveldara með það.

Fyrir fjórum dögum birti hann svo myndskeið þar sem hann lýsir atvikinu þar sem hann var niðurlægður í stærðfræðitíma og birti m.a. skjáskot þar sem kennarinn sést standa við hlið töflunnar þar sem umrædd skilaboð komu fram.

Þyngdin notuð sem stærðfræðidæmi

Stærðfræðitíminn sem atvikið átti sér stað í, byrjaði með þeim hætti að kennarinn bað Gunnar Inga um að gefa upp þyngd sína en töluna átti að nota í stærðfræðidæmi. Gunnar veitti upplýsingarnar, enda vildi hann ekki líta út fyrir að vera skræfa fyrir framan bekkjarfélagana, að eigin sögn. Kennarinn skrifaði þá nafn Gunnars og þyngdina við hliðina á. Þegar Gunnar fór svo fram á að þetta yrði strokað út, enda dæmið leyst, þá brást kennarinn við með því að skrifa „Fat boy!“ undir nafnið og svo ör sem benti á tölustafina er táknuðu þyngdina.

Eftir tímann talaði kennarinn við Gunnar og bað hann afsökunar og taldi sig hafa gert þetta í góðlátlegu gríni, að sögn Gunnars.

Fundað með skólastjóra

Gunnar Ingi átti erfitt með að tala um atvikið við foreldra sína þegar það kom upp, þar sem móðir hans hafði greinst með krabbamein og vildi hann ekki valda henni meiri streitu.

Eftir að hafa rætt við bróður sinn töldu þeir þó skynsamlegt að upplýsa móður þeirra um hvað hafði gerst. Hún fór síðar á fund með skólastjóra og rætt var við stærðfræðikennarann.

Gunnar er þó enn ósáttur og vill að kennaranum verði sagt upp.

Í samtali við mbl.is sagði Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla, að málið væri leyst. Skólastjórnendur hefðu brugðist við á sínum tíma og að beðið hefði verið afsökunar. Þá hefði verið um einsdæmi að ræða en aldrei áður hefur kvörtun borist vegna kennarans.

@gunnaringvars

Pældu í þvi að byrja stærðfræðitima með þvi að spurja krakka hversu þungur hann er.

♬ sonido original - joan.camus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert