Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss

Aðkoman að Seljalandsfossi fyrir skömmu.
Aðkoman að Seljalandsfossi fyrir skömmu. Ljósmynd/Pétur Einarsson

„Sveitarfélagið harmar ávallt ef upplifun gesta er ekki í samræmi við væntingar eða ef misbrestur hefur orðið í umsjón ferðamannastaða innan marka sveitarfélagsins,“ segir í svari Margrétar Jónu Ísólfsdóttur, fjármála- og skrifstofustjóra hjá Rangárþingi Eystra, við fyrirspurn mbl.is um aðstöðu við Seljalandsfoss.

Leiðsögumaður sagði nýlega í samtali við mbl.is að aðkoman að Seljalandsfossi væri „ógeðsleg“. Hann sagðist hálfpartinn skammast sín fyrir hvernig hafi verið haldið utan um þessa náttúruperlu.

Margrét Jóna segir að mikill fjöldi ferðamanna hafi lagt leið sína að Seljalandsfossi síðustu daga og álag hafi verið töluvert.

„Í framhaldi af umfjöllun mbl.is um málið var farin vettvangsferð um svæðið og óskað frekari upplýsinga frá landeigendafélaginu. Þegar fulltrúa sveitarfélagsins bar að garði var ásýnd svæðisins viðunandi en hafa ber í huga að framkvæmdir við klósettaðstöðu standa þar yfir auk þess sem bílastæði við fossinn eru tímabundin,“ segir Margrét.

Landeigendafélag sjái um umsjón og rekstur 

Margrét segir umsjón og rekstur þessa svæðis er hér hefur verið til umfjöllunar vera í höndum landeigendafélags við Seljalandsfoss.

„Landeigendafélagið vinnur nú að undirbúning að uppbyggingu á svæðinu samkvæmt skipulagi og samkomulagi við sveitarfélagið. Felur það samkomulag í sér að sveitarfélagið muni koma að umsjón og rekstri svæðisins með landeigendafélaginu. Það samkomulag hefur ekki enn hlutgerst með þeim hætti og stendur sveitarfélagið því fyrir utan umsjón og rekstur svæðisins í dag,“ segir Margrét.

„Sveitarfélaginu er annt um ásýnd og umhirðu allra ferðamannastaða í sveitarfélaginu og hvetur íbúa og gesti að senda sveitarfélaginu ábendingar um það sem betur má fara í þar til gerðum ábendingahnapp á heimasíðu sveitarfélagsins www.hvolsvollur.is.“

Blaðamenn mbl.is hafa síðustu daga ítrekað reynt að ná sambandi við landeigendur Seljalandsfoss, án árangurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina