Ummæli saksóknarans staðfesti grun um fordóma

„Það að fara að kvótavæða fólk er rugl. Við leggjum …
„Það að fara að kvótavæða fólk er rugl. Við leggjum ekki kvóta á persónueinkenni,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

Orð vararíkissaksóknara: „Er ein­hver skort­ur á homm­um á Íslandi?“ senda þau skilaboð til hinsegin fólks að það sé minna virði en aðrir borgarar samfélagsins, að mati formanns Samtakanna '78. Þá staðfesti ummælin grun samtakanna um kerfislæga fordóma.

Í færslu á Facebook setti vara­rík­is­sak­sókn­arinn, Helgi Magnús Gunnarsson, fram athugasemdir sínar vegna nýfallins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dóm­ur­inn dæmdi að Útlend­inga­stofn­un og kær­u­nefnd út­lend­inga­mála hefðu rang­lega ekki tekið kyn­hneigð manns trú­an­lega, en stefn­andi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2019 sök­um kyn­hneigðar.

Helgi skrifaði á Facebook: „Auðvitað ljúga þeir. Flest­ir koma í von um meiri pen­ing og betra líf. Hver lýg­ur sér ekki til bjarg­ar? Þar fyr­ir utan er ein­hver skort­ur á homm­um á Íslandi?“

„Það eru vissulega fordómar í kerfinu“

„Það sem er kannski áhugavert í þessu er að dómurinn byggir svolítið mikið á því að niðurstaðan í máli þessa hælisleitanda hafi verið byggð á ákveðnum fordómum, þ.e.a.s. að það séu kerfislægir fordómar sem vinni gegn hælisleitendum. Þarna er [Helgi Magnús] náttúrulega að einhverju leyti að staðfesta þann grun. Það eru vissulega fordómar í kerfinu,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78 – hagsmunafélags hinsegin fólks á Íslandi, og bætir við:

„Skilaboðin til hinsegi nfólks eru augljóslega þau að við séum síðri borgarar sem staðfestir áfram okkar grun um þá fordóma sem eru í kerfinu og það er auðvitað mjög miður að svona háttvirtur maður leyfi sér að segja svona.“

Helgi Magnús hefur áður verið gagnrýndur fyrir hegðun á samfélagsmiðlum, nú síðast þegar hann „líkaði við“ umdeilda færslu á samfélagsmiðlum.

„Ég hef aldrei vitað af hvorki skorti né ofgnótt af hommum“

Spurður hvort það sé fráhrindandi fyrir hinsegin fólks sem vill leita réttar síns að sjá ummæli sem þessi frá svo hátt settum manni segir Álfur:

„Þetta tekur úr manni allan vind. Þetta eru svipuð áhrif og talað er um oft í Druslugöngunni sem verður á morgun, þegar við sjáum hvernig kerfið talar um okkur viljum við ekki taka þátt í þessu kerfi. Svo stöndum við nú samt keik og höldum áfram í þessu samfélagi. Þetta er mjög líklegt til þess að slá andann úr einhverju fólki sem ætlaði að fara að leita réttar síns,“ segir Álfur.

Aðspurður segist hann ekki kannast við að of mikið eða of lítið sé af samkynhneigðum mönnum á landinu, og svarar þannig spurningu vararíkissaksóknarans.

„Ég hef aldrei vitað af hvorki skorti né ofgnótt af hommum,“ segir Álfur léttur í bragði og bætir við að lokum: „Það að fara að kvótavæða fólk er rugl. Við leggjum ekki kvóta á persónueinkenni.“

mbl.is