Hinsegin dagar hefjast í dag

Bankastræti verður regnbogagatan í ár.
Bankastræti verður regnbogagatan í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast í dag og mun Bankastræti af því tilefni vera málað í regnbogalitunum og breytast í Regnbogastræti á meðan á hátíðinni stendur, frá Ingólfsstræti í átt að Lækjargötu.

Setning Hinsegin daga hefst á gatnamótum Bankastrætis og Ingólfsstrætis klukkan 12.00 í dag og munu þar Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga og Eliza Reid forsetafrú, halda ávörp áður en málningarvinnan hefst.

Gleðiganga á laugardaginn

Á dagskrá Hinsegin daga kennir ýmissa grasa. Regnbogaráðstefna Hinsegin daga fer fram í fyrsta sinn dagana 3. og 4. ágúst en að vanda ná Hinsegin dagar hámarki með Gleðigöngu og útihátíð í Hljómskálagarðinum á laugardag.

Um verslunarmannahelgina opnuðu Hinsegin dagar Pride Center, kaupfélag og upplýsingamiðstöð á Geirsgötu 9 í Reykjavík. Þar verður opið alla vikuna og því tilvalið að líta við í mat, drykk og landsins mesta úrval af regnbogavarningi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Hinsegin daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert