Segir ekki frá nema Namibíumennirnir samþykki

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, ætlar ekki upplýsa fjölmiðla um hvað fór fram á fundinum sem hann átti með aðstoðarforsætisráðherra Namibíu og fylgdarliði hans þann 7. júní, um stöðu Samherjamálsins. Það geri hann ekki nema að vera viss um að Namibíumennirnir séu „sáttir við það“, að því er fram kemur í færslu hans á Facebook þar sem hann rekur atburðarásina í aðdraganda fundarins frá sinni hlið. 

Hann tekur fyrir að Namibíumennirnir hafi verið hér í embættiserindum og segir að í besta falli væri hægt að líta á þetta sem óformlegan fund enda hafi namibíski aðstoðarforsætisráðherrann og fylgdarliðið bankað óvænt upp á hjá forsætisráðherra Íslands til að ræða um Samherjamálið eftir að hafa lokið ferð um gullna hringinn. 

Þá kveðst hann jafnframt ekki muna hvort sá sem hann fundaði með hafi verið aðstoðarmaður forsætisráðherra Namibíu eða aðstoðarforsætisráðherra. Sjálfur segist Brynjar ekki vera embættismaður.

Utan gildissviðs upplýsingalaga

Í frétt Fréttablaðsins í morgun segir að namibísk stjórnvöld vilji ekki staðfesta að fundur namibískra embættismanna með Brynjari Níelssyni hafi verið í einkaerindum. Fengu þau þessar upplýsingar hjá talskonu namibíska utanríkissamskipta- og samvinnuráðuneytinu.

Þar segir að Netumbo Nandi-Ndaitwah aðstoðarforsætisráðherra Namibíu, ríkissaksóknari Namibíu og aðstoðarframkvæmdastjóri namibísku spillingarnefndarinnar hafi setið fundinn sem fór fram í byrjun júní. Fyrr þann sama dag funduðu embættismennirnir með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð utanríkisráðherra.

Í fréttinni segir einnig að Brynjar hafi hingað til neitað að upplýsa um tilefni fundarins þar sem hann hafi verið í einkaerindum en ekki opinberum erindagjörðum og sé þar með utan gildissviðs upplýsingalaga.

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fer fram á „ögn af fagmennsku“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gagnrýnt svör Brynjars um fundinn og kallar hún eftir „ögn af fagmennsku“ frá honum í færslu á Facebook.

Þetta er auðvitað ævintýraleg della. Aðstoðarmaður dómsmálaráðherra fundar ekki með aðstoðarforsætisráðherra Namibíu, ríkissaksóknara Namibíu og aðstoðarframkvæmdastjóra namibísku spillingarnefndarinnar fyrir hönd Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í einkaerindum. Ekki frekar en forsætisráðherra sem fundaði með þeim fyrst eða utanríkisráðherra,“ skrifar hún á Facebook.

Brynjar svaraði gagnrýni Helgu Völu fyrr í dag þar sem hann sagði „langeinfaldast“ fyrir fólk að spyrja fólkið frá Namibíu um hvað fór fram á fundinum. 

Ég mun ekki segja frá hvað gerðist á fundinum enda veit ég ekki fyrir víst í hvort þau voru í embættiserindum eða litu á þetta sem óformlegan fund. En ég skal fyrstur segja frá fundinum og efni hans ef namíbíumennirnir eru sáttir við það. Eg hef engan áhuga á að leyna fréttamenn og almenning upplýsingum.

Sjálfur held ég að það sé nánast óþekkt að fólk í embættiserindum banki upp á í stjórnarráðinu nýkomið frá Gullfossi og Geysi og reiknar með að fá fund með ráðherra. Í besta falli er hægt að kalla slíka fundi óformlega. En ég bíð spenntur eftir hvað vel menntuðu leikararnir í Samfylkingunni nái að spinna langt leikrit úr þessum fundi,“ skrifar hann í færslunni.
mbl.is