Víðir kominn í sumarfrí

Víðir Reynisson er aftur kominn í sumarfrí.
Víðir Reynisson er aftur kominn í sumarfrí. mbl.is/Ásdís

Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deildar rík­is­lög­reglu­stjóra, er aftur kominn í sumarfrí eftir að hann var kallaður til vinnu vegna eldgossins í Meradölum. Þetta staðfestir Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar hjá almannavörnum.

„Hann átti að vera í sumarfríi en kom inn því það er betra að hafa fleiri hendur. Við sendum hann aftur í frí í gærkvöldi,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is.

„Mjög algengt er að fólk sé kallað úr fríi hjá okkur í nokkra daga og svo fer það aftur í frí. Þetta tengist bara atburðum og álagi í vinnunni. Í byrjun atburðar er rosalega mikið sem fer í gang til þess að átta sig á stöðunni og umfangi atburðarins,“ bætir hún við.

Ingibjörg Lilja segir að nú þegar óvissan með eldgosið er minni en í upphafi hafi verið talið óhætt að senda Víði aftur í frí.

Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri hjá Almannavörnum, sinnir verkefnum Víðis í fjarveru hans. 

Almannavarnir funda nú með sveitarfélögum á Suðurnesjunum. Tilefni fundarins er meðal annars að ræða aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum.

mbl.is