Björgunarsveitir ekki varanleg lausn

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna vegna eldgossins í gær.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna vegna eldgossins í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir björgunarsveitir ekki vera varanlega lausn í gæslumálum við gosstöðvarnar í Meradölum. Þá tekur hann fram að björgunarsveitirnar verði ekki skildar eftir með eldgosið á sinni könnu eins og í síðasta gosi.

Funduðu um stöðuna

Almannavarnir funduðu með vísindamönnum og viðbragðsaðilum á Suðurnesjum í morgun til að ákveða næstu skref. Aðspurður segir hann næst á dagskrá vera að tryggja öruggt aðgengi að gosinu. 

„Við erum að finna hvar bestu gönguleiðirnar verða og stika þær síðan í framhaldinu. Við erum að vinna að því núna að tryggja að fólk slasi sig ekki á leiðinni.“

Hann segir að vinnan sé nú þegar hafin og að það eigi eftir að taka nokkra daga að skapa örugga gönguleið og bætir við að jafn mikilvægt sé að björgunarfólk komist um svæðið þar sem göngufólk er.

Fólk á launum taki við björgunarsveitum

Víðir tekur þá fram að gæsla á svæðinu sé í höndum björgunarsveita eins og er en undirstrikar að það séu aðeins fyrstu viðbrögð.

Spurður hvort að björgunarsveitirnar muni sinna gæslu á gosstöðvunum í sjálfboðastarfi í lengri tíma ef að eldgosið dregst á langinn segir hann að hann ætli að reyna gera allt sem hann geti svo þess þurfi ekki.

„Við getum alveg örugglega treyst á að þau myndu gera það en það er ekki það sem við ætlum að gera. Við ætlum ekki að láta þau sitja upp með þetta verkefni eins og síðast.“

Hann bætir við að björgunarsveitin muni standa vaktina með þeim eins lengi og til þarf en að ætlunin sé að leysa þau frá verkefninu eins fljótt og auðið er.

Aðspurður segir hann líklegustu lausnina vera að gæslufólk á launum taki við störfum björgunarsveitanna. Blanda af lögreglumönnum og landvörðum munu þá að öllum líkindum sinna gæslunni.

Göngureynsla ákjósanleg

Víðir ítrekar þá mikilvægi þess að fólk sé vel skóað og í góðum fötum fyrir ferðina og bendir á að þau hafi þurft að stöðva þó nokkra sem voru illa búnir á leið um gosstöðvarnar.

Gönguleiðin að gosstöðvunum núna er um 17 kílómetra ganga og getur því tekið um fimm klukkustundir að ganga fram og til baka fyrir utan tímann sem maður ver á staðnum. 

„Maður þarf að vera vanur gönguferðum. Það er bara hagsmunamál í sjálfu sér að fólk fái að berja þetta augum. Það er ekkert okkar stefna að reyna loka á það en þetta er ekki eitthvað sem þú skokkar bara að í strigaskóm,“ segir Víðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka