Enn von fyrir Ronju eftir níu daga á hálendinu

Ronja týndist þann 31. júlí frá Svínárnesi í Hrunamannaafréttum. Kortið …
Ronja týndist þann 31. júlí frá Svínárnesi í Hrunamannaafréttum. Kortið til hægri sýnir hvar hún sást síðastliðin föstudag að elta bíl. Samsett mynd

Hundurinn Ronja er búinn að sjást í tvígang frá því hún týndist uppi á hálendinu inni á Hrunamannaafrétti þann 31. júlí.

Hundasveitin hvetur alla þá sem hafa tök á og eru á svæðinu til að hjálpa við leitina. 

Komu auga á Ronju á laugardag

Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði í Hundasveitinni, segir að hundurinn hafi nú þegar farið um 50 kílómetra radíus, en þó sé enn von fyrir eigendur.

„Við höfum fundið hunda áður við mun meira krefjandi aðstæður, síðan fórum við í 16 tíma leit á hálendinu og sáum engin áhyggjuefni þarna.“

Þá hafi tveir einstaklingar í rallý-keppni á svæðinu komið auga á hana á laugardag og á föstudagskvöldinu sá bóndi hana elta bíl, 30 kílómetrum frá Skáldsbúðum í Skeið-og Gnúpverjahreppi. 

Dæmigert að hundur týnist vegna hræðslu

Sandra segir tilfellið vera dæmigert þar sem hundar týnist oftast vegna hræðslu um að hafa týnt eigendum sínum. 

„Hún var í pössun hjá aðila í skálanum á meðan eigendur hennar fóru í hestaferð, hún hafi verið ein í smástund og var þá rokin á brott, en við teljum að hún hafi orðið hrædd og farið að leita að eigendum sínum.“

Á dögunum týndist annar hundur á sama svæði í um fimm daga og fannst síðan heill á húfi. Hann hafði þó ekki farið eins langt frá svæðinu eins og Ronja hefur gert, ef litið er til þess hvar hefur sést til hennar. 

Biðja um aðstoð fólks á svæðinu

Hún segir allt benda til þess að Ronja flakki nú á milli skála sem notaðir eru ýmist fyrir hestaferðir og veiði, þar sem hún finni þar lykt af fólki.

Þá bregðist sveitin við með því að reyna að ná fleiri sjálfboðaliðum í leitirnar til að geta keyrt að svæðinu frá mismunandi skálum í kring, svo hægt sé að inniloka hundinn. 

„Við viljum ítreka við fólk að ef það býr á svæðinu og hefur aðstöðu, þá má það endilega fara á göngutúr eða hestbaki upp á hálendið, við þurfum bara eina vísbendingu til að þrengja leitina enn frekar.“

mbl.is