Hafa kært tvö utanvegaakstursmál til lögreglu

Utanvegaakstur er óheimill samkvæmt lögum.
Utanvegaakstur er óheimill samkvæmt lögum. mbl.is/Kristófer Liljar

Umhverfisstofnun hefur borist fjöldi tilkynninga um utanvegaakstur við gosstöðvarnar í Meradölum frá því að gosið hófst í síðustu viku. Að sögn sviðsstjóra hjá stofnuninni kemur þetta ekki á óvart þar sem svipað var upp á teningnum í síðasta gosi.

„Við höfum fengið mjög margar ábendingar um utanvegaakstur. Við höfum haldið utan um þær og kært það sem hægt er,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Samkvæmt 31. grein laga um náttúruvernd er bannað að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Brot á ákvæðinu getur varðað sekt eða allt að tveggja ára fangelsi. Frá lögunum er þó hægt að veita undanþágu, en á grundvelli hennar hafa björgunarsveitir og lögregla heimild til að aka um svæðið.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag utanvegaakstur vera „ákveðið vandamál“ á svæðinu en erfitt væri að halda utan um það. 

Umhverfisstofnun kvaðst ekki geta veitt nákvæmar upplýsingar um hversu margar tilkynningarnar um utanvegaakstur henni hafi borist, en hún hefur þó tilkynnt tvö tilvik til lögreglu síðan gosið hófst í síðustu viku. Bendir stofnunin á að lögreglu hafi eflaust borist fleiri tilkynningar beint til sín.

Ekki heimild til að stoppa fólk

Inga Dóra segir Umhverfisstofnun nú vinna að því að koma landvörðum á svæðið þrátt fyrir að erfitt sé að hafa eftirlit með akstrinum.

„Það er í bígerð að efla landvörslu þarna. En það er engin heimild til að stoppa fólk, heldur vera með upplýsingar til aðila. Það er utanvegakstur á mjög mörgum stöðum og því erfitt að hafa eftirlit með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert