Telja aflögun við Grindavík ekki merki um kviku

Svartur kassi hefur verið teiknaður utan um aflögunina skammt norðaustur …
Svartur kassi hefur verið teiknaður utan um aflögunina skammt norðaustur af Grindavík. Kort/Veðurstofa Íslands

Sjá má merki um aflögun skammt norðaustur af Grindavík, á gervihnattamyndum sem sýna landbreytingar á Reykjanesskaga frá lokum júlí.

Vísindaráð almannavarna fundaði um þetta í morgun og fór meðal annars yfir gögn frá svæðinu, á borð við GPS-mælingar og skjálftamælingar.

Er það mat ráðsins að gögnin sýni engar vísbendingar um að kvika sé þarna á ferðinni. Líklegasta skýringin er sögð vera þær breytingar á yfirborði sem orðið hafi í skjálftanum sem reið yfir þann 31. júlí og mældist 5,5 að stærð.

„Engu að síður munu vísindamenn safna frekari gögnum til að staðfesta enn frekar að svo sé. Rætt var að mikilægt væri að auka vöktun enn frekar á þeim umbrotasvæðum sem geta haft áhrif nærri byggð með því að setja upp fleiri mælitæki til rauntímavöktunar,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Mikilvægt að búa sig undir langt gos

Í tilkynningunni segir einnig að vísindamenn meti það sem svo að framgangur gossins sé eins og við hafi mátt búast.

Gosvirknin hafi haldist nokkuð stöðug síðustu daga og mikilvægt sé að búa sig undir að gosið standi yfir í nokkuð langan tíma.

Kortið í heild sinni má sjá hér að ofan.
Kortið í heild sinni má sjá hér að ofan. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is