Á ekki að snúast um persónur

Anna Hildur Guðmundsdóttir í höfuðstöðvum SÁÁ í Efstaleiti.
Anna Hildur Guðmundsdóttir í höfuðstöðvum SÁÁ í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Anna Hildur Guðmundsdóttir tók óvænt að sér formennsku hjá Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann síðasta vetur en flestir tengja reyndar betur við skammstöfunina SÁÁ.

Hún tók í framhaldinu þá ákvörðun að gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku og var kjörin á aðalfundi samtakanna í sumar. Er hún fyrsta konan sem gegnir formennsku hjá SÁÁ. Sunnudagsblaðið falaðist eftir viðtali við formanninn og spyr hvernig fyrstu mánuðirnir hafi gengið fyrir sig í formannsembættinu.

„Þeir hafa verið fínir. Aðalfundurinn var mjög seint eða í lok júní. Um leið og aðalfundurinn var afstaðinn, fóru margir í sumarfrí. Segja má að við séum að fara af stað núna eftir verslunarmannahelgina. Sumarið var því frekar rólegt hjá mér varðandi formennskuna, sem var gott því ég var lúin og þreytt eftir aðalfundinn. Ég var hérna fyrir sunnan í maí og júní og því var gott að komast aftur norður og átta mig betur á þeirri stöðu sem ég var komin í. Nú er hins vegar allt að fara af stað aftur og spennandi tímar framundan,“ segir Anna Hildur, sem er með aðstöðu í húsakynnum SÁÁ í Efstaleiti þegar hún er í höfuðborginni, en hún er búsett á Akureyri.

Í janúar sagði Einar Hermannsson af sér sem formaður SÁÁ eftir eitt og hálft ár í starfi og tók þá Anna Hildur við formennsku, tímabundið til að byrja með.

„Þá tók ég þetta að mér og upp úr því var ýtt á mig að bjóða mig fram til formennsku á aðalfundinum. Af hverju ekki? hugsaði ég. Heilbrigður lífsstíll er áhugamál hjá mér og ég vil vekja athygli á því hvað felst í lífi án áfengis. Ég hef verið áfengis- og vímuvarnarfulltrúi í mörg ár og hef því unnið lengi við þetta. Ég hef þekkinguna og mig langar til að miðla af henni. SÁÁ eru rosalega sterk og stöðug samtök en það eru kynslóðir að vaxa úr grasi sem þekkja ekki hvernig hlutirnir voru áður en SÁÁ var stofnað. Ef fólk þekkir ekki söguna, þá tekur það SÁÁ sem sjálfsögðum hlut og sjálfsagt sé að komast í viðtal eða meðferð. Á bak við það eru þessi samtök sem safna öllum þessum fjármunum,“ bendir Anna á en SÁÁ er með samning við ríkið upp á 1,3 milljarða króna og ofan á það safna samtökin um 600 milljónum á ári. Veltan er því mikil.

„Þessu þurfum við að halda áfram til að geta rekið þá þjónustu sem við bjóðum upp á,“ segir Anna sem hafði verið í framkvæmdastjórn SÁÁ í eitt og hálft ár áður en hún varð formaður. Hún býr yfir starfsreynslu hjá SÁÁ og var áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá Akureyrarbæ, þar sem hún hefur raunar einnig verið bæjarfulltrúi.

„Þegar ég gaf kost á mér í stjórn SÁÁ, þá fannst mér vanta rödd af landsbyggðinni. Ég tók eftir því að fáir stjórnarmenn bjuggu utan höfuðborgarsvæðisins. Ég hef komið að þessum málum úr nokkrum áttum og fannst ég þar af leiðandi hafa þekkinguna. Maður á að stökkva út í laugina þegar eitthvað áhugavert býðst. Mér fannst einnig áhugavert að aldrei fyrr hefði kona gegnt formennsku hjá SÁÁ. Ég myndi segja að það væri áfangi, því þetta hefur verið mjög karllægt samfélag. Ég hef gaman af því að taka þátt í þessu breytingaferli.“

Hugðist fara í meðferð á Spáni

Anna Hildur er fædd og uppalin á Akureyri. Þar gekk hún í skóla áður en hún fór að skoða sig um í heiminum. Bjó hún um tíma í Noregi, Bretlandi og á Spáni áður en hún flutti heim til Akureyrar á ný árið 2008.

„Þegar maður kemur aftur heim, þá er Akureyri æðislegur staður en það fannst manni ekki alltaf á yngri árum. Eftir að hafa búið erlendis, kann maður að meta Akureyri og auðvitað eru forréttindi fyrir okkur að búa á Íslandi,“ segir Anna. Sjálf tók hún þá ákvörðun að hætta áfengisneyslu árið 2003 en þá voru dætur hennar, Ásdís og Brynja Rún Guðmundsdætur, fjögurra og tveggja ára gamlar.

„Ég hef verið edrú í nítján ár og er hrifin af lífsstílnum, því mér finnst ég hafa grætt svo mikið á því að hætta að drekka. Þessu fylgir frelsi en erfitt getur verið að lýsa því. Ég get valið hvað ég vil gera í stað þess að áfengið stjórni. Færnin til að takast á við lífið hefur aukist en lífið er svakalega flókið. Manneskjan gerir lífið flókið og ekki bætir úr skák ef maður á í vandræðum. Mér finnst ég hafa fengið verkfæri í hendurnar til að gera lífið einfaldara og velja hvað ég vil gera í lífinu. Jafnvel þótt maður nái að sinna sínum skyldum, þá er litla gleði að hafa, vegna þessarar innri óánægju sem getur fylgt drykkjunni og er svo erfið,“ segir Anna en á yngri árum segist hún hafa verið öflug í djamminu og hafi einnig starfað á kaffihúsum, veitingastöðum og skemmtistöðum.

„Já, já, ég var mjög góð á barnum. Maður var gjafmildur á djamminu en skildi svo ekkert í því að ég fékk aldrei útborgað,“ rifjar Anna upp og hlær. „Ég starfaði til dæmis sem þjónn og þá var þetta lífsstíllinn en svo hentaði það ekki eftir að ég eignaðist börn. Ég hætti því bæði að vinna í þessum bransa og hætti að drekka. Það eru alls ekki allir í veitingahúsabransanum í miklu djammi en mér fannst lífsstíllinn ýta undir meiri neyslu hjá mér.“

Anna reyndi að fara í áfengismeðferð þegar hún bjó á Spáni en rak sig á að slíkt er ekki jafn aðgengilegt og á Íslandi.

„Það er einstakt á heimsvísu að félagasamtök eins og SÁÁ reki heilbrigðisþjónustu og hafi byggt upp meðferðarúrræði. Ég leitaði mér aðstoðar á Spáni á sínum tíma og þar var horft á mig eins og ég væri eitthvað skrítin. Það var ekkert í boði, annað en að kaupa meðferðarþjónustu hjá einkaaðilum fyrir milljónir. Fyrir vikið pantaði ég meðferð hjá SÁÁ og hér er aðgengi fyrir alla til að fara á sjúkrahúsið Vog.“  

Viðtalið við Önnu Hildi í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert