Erlendum ferðamönnum bjargað úr Krossá

Krossá getur verið varasöm. Mynd úr safni.
Krossá getur verið varasöm. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Fimm erlendum ferðamönnum var bjargað úr Krossá á leið inn í Þórsmörk í gær. Bifreið ferðamannanna stóð föst í ánni miðri fyrir framan mikinn hyl.

„Þetta hefði getað farið illa en sem betur fer eru skálaverðir á svæðinu snöggir til og hjálpa þeim úr bílnum, þannig að þeir eru komnir úr bílnum áður en björgunarsveitir komu á vettvang,“ segir Harpa Sif Þorsteinsdóttir, formaður björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hvolsvelli, í samtali við mbl.is.

Harpa segir að líklega hafi ferðamennirnir ekki gert sér grein fyrir aðstæðum í ánni og hversu hættuleg hún geti verið. Bíll ferðamannanna var fyrir framan mikinn hyl í ánni.

„Þeir sem eru vanir hefðu ábyggilega valið aðra leið en ég get ekki sagt nákvæmlega hvar þau fóru út í.“

Harpa segir að björgunarsveitin hafi dregið bílinn á þurrt land en þau skipta sér ekki meira af bílnum. Bíllinn er bílaleigubíll og er nú í höndum bílaleigunnar hvað gera skuli í framhaldinu með hann.

Uppfært klukkan 18.42:

mbl.is hefur borist upplýsingar um að ekki hafi skálaverðirnir komið ferðamönnunum til bjargar, heldur hafi bræðurnir Gestur Þór og Sveinn Óskarssynir lagt sig í mikla hættu til að bjarga ferðamönnunum úr bílnum. Þeir hafi vaðið út í ána og bjargað einum ferðamanni í einu úr bílnum.

mbl.is