Yngstu notendurnir valdi helst vandanum

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir fyrirtækið taka málinu alvarlega …
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir fyrirtækið taka málinu alvarlega og því vinni það nú að lausnum á vandanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærsta rafskútufyrirtæki lands, Hopp, vinnur nú að því að bæta hugbúnað sinn til að sporna við því að notendur leggi skútunum illa. Dæmi eru um að skútunum sé lagt þvert yfir göngu- og hjólastíga sem hefur í för með sér aukna slysahættu og getur takmarkað aðgengi fatlaðra einstaklinga verulega. Hjólreiðafólk hefur tekið eftir því að vandamálið sé að versna.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir í samtali við mbl.is að fyrirtækið viti af vandamálinu og taki því alvarlega. Að hennar sögn er nú unnið að því forrita í hugbúnað þeirra lausnir sem eigi að vera bót á þessu vandamáli.

Dæmi eru um að rafskútum sé illa lagt og takmarki …
Dæmi eru um að rafskútum sé illa lagt og takmarki aðgengi annarra um göngu- og hjólastíga. Samkvæmt upplýsingum frá Hopp eru þó lang flestir notendur duglegir við að leggja skútunum vel. Ljósmynd/Birgir Birgisson

Reyna að ná til yngstu notenda

Meðal þeirra aðgerða sem Hopp hyggst grípa til er að hægja á skútum áður en þær verða alveg batteríslausar, byrja að senda sjálfvirkar tilkynningar á sólarhringsvakt fyrirtækisins þegar skútur enda á slæmum stöðum og gera fólki kleift að tilkynna illa lagðar skútur í Hopp-appinu.

Á meðan þessi vinna er í gangi hefur Hopp þó gripið til annarra aðgerða. Meðal annars hefur verið búin til sérstök hjólastígavöktun og eru unnið að frekara markaðsefni til að ná til þeirra notenda sem skilja illa við skúturnar. 

Að sögn Sæunnar er það helst yngsti notendahópur Hopp sem skilur illa við þær. Því vinnur fyrirtækið nú að því að koma skilaboðunum til hópsins í gegnum samfélagsmiðla en hvetur Sæunn foreldra einnig til að ræða við börnin sín um að ganga vel frá skútunum. 

Nefnir hún að ef að vandinn fari ekki að lagast muni fyrirtækið mögulega þurfa grípa til þess að byrja sekta þá sem leggja skútunum illa, það sé þó síðasta úrræði.

Hopp hefur fengið fimm rafskútusvæði í borginni. Eru þau við …
Hopp hefur fengið fimm rafskútusvæði í borginni. Eru þau við Lækjartorg, Ingólfstorg, Klapparstíg, Hallgrímskirkju og Hlemm. Ljósmynd/Hopp

Borgin þurfi að taka ábyrgð

Í byrjun júlí fékk Hopp fimm rafskútustæði í Reykjavík en fyrirtækið myndi gjarnan vilja hafa þau fleiri. Telur Sæunn eðlilegt að vera með rafskútusvæði við hvert strætóskýli þar sem notkunin sé orðin það mikil, en daglega eru um 12.000 ferðir farnar á skútunum og tengir Hopp rúmlega 35% þeirra við notendur sem koma úr Strætó.

Erlendur telur rétt að borgin komi að málinu, hvort sem …
Erlendur telur rétt að borgin komi að málinu, hvort sem það væri með því að setja reglur á rafskútuleigurnar eða vinna með þeim að lausnum á vandanum. Ljósmynd/Birgir Birgisson

Erlendur S. Þorsteinsson, áhugamaður um hjólreiðar og stofnandi Facebook-hópsins Verst lagða rafskútan, segir vandamálið vera að versna. Í Facebook-hópnum eru daglega birtar myndir af illa lögðum rafskútum.

Hann fagnar því að Hopp sé að skoða málið og tekur undir með Sæunni að rafskútusvæðin mættu vera fleiri. Telur hann þó að Reykjavíkurborg þurfi að taka málið föstum tökum þar sem að borgin hafi verið fyrst til að leyfa rafskútuleigur og þannig mótað reglurnar í kringum þær.

„Reykjavík þarf líka að taka ábyrgð því að þau bjuggu til leikreglurnar. Þau gefa leyfi til fyrirtækjanna og þau þurfa að framfylgja reglunum. Þau þurfa að finna lausnir með leigunum. Þau bjuggu til leikreglurnar og þau verða þá að breyta þeim ef þær ganga ekki upp. Þannig að á endanum rúllar ábyrgðin upp hjá Reykjavíkurborg til þess að setja reglur á rafskútuleigurnar eða vinna hugmyndir með þeim,“ segir Erlendur í samtali við mbl.is.

mbl.is