Óbeisluð heift í konungsríkinu Svíþjóð

Hvort tveggja er í stjórnendastöðum hjá Raw Fury, en hér …
Hvort tveggja er í stjórnendastöðum hjá Raw Fury, en hér stija þau í sófa í starfstöðvunum. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur langaði að búa erlendis og mig langaði líka til að starfa hjá fjölþjóðlegu fyrirtæki og vissi að nóg væri af þeim hér. Því ákvað ég að athuga hvort einhver möguleiki væri á að komast inn í svoleiðis bransa,“ segir Kjartan Freyr Jónsson, fjármálastjóri tölvuleikjaforlagsins Raw Fury í Svíþjóð, þar sem hann og eiginkona hans, Íris Stefánsdóttir skrifstofustjóri, starfa bæði.

Upphafsorð fyrirsagnar þessa viðtals eru einn margra þýðingarmöguleika Raw Fury og eru lesendur beðnir að draga ekki þá ályktun að þessi dagfarsprúðu hjón skilji eftir sig sviðna jörð um sænsku höfuðborgina Stokkhólm, þar sem þau eru búsett. Þau féllust hins vegar á að segja Morgunblaðinu af lífi sínu og störfum í Svíþjóð og fylgir hér frásögnin sú.

„Við erum bæði viðskiptafræðingar, útskrifuð frá Bifröst 2004,“ segir Íris frá. Ekki kynntust þau þó á Bifröst. „Nei, nei, við kynntumst í menntaskólapartýi 1998,“ heldur Íris áfram, „við erum búin að vera saman í 24 ár,“ skýtur Kjartan inn í og vottar fyrir stolti í röddinni, enda vel af sér vikið að eiga slíkan árafjölda að baki.

Íris og Kjartan hafa verið par í 24 ár, en …
Íris og Kjartan hafa verið par í 24 ár, en þessi mynd var tekin árið 1998. Ljósmynd/Aðsend

„Sko, vinkona mín var kærasta vinar hans Kjartans, ég var í Menntaskólanum í Kópavogi en hann var í Verzló,“ útskýrir Íris kynni þeirra hjónanna, hún úr Kópavogi, fædd 1981, hann úr Hafnarfirði, fæddur 1980.

Var það Eurovision?

„Þetta er náttúrlega aldrei auðvelt, við erum með þrjú börn og allt þetta en vorum búin að kynna okkur þetta mjög vel,“ svarar Kjartan spurningu um hvernig gengið hafi að rífa sig upp frá gamla landinu og drífa sig til Svíþjóðar.

„Við vildum líka flytja til einhvers Skandinavíulands,“ tekur Íris við, „okkur langaði ekkert allt of langt frá Íslandi, auðvitað vill maður geta skroppið heim og hitt fólk og allt þetta. Svíþjóð, ég veit ekki hvort það var Eurovision eða eitthvað annað,“ segir hún og hlær björtum hlátri, „en allir Íslendingar fluttu einhvern veginn alltaf til Köben og okkur langaði að fara eitthvert annað.“

„Við þekktum nú eitthvað af góðu fólki hérna líka,“ skýtur Kjartan inn í og Íris heldur áfram: „Við vorum líka bara að leigja á Íslandi, vorum ekki með neinar sérstakar skuldbindingar.“ Bætir Kjartan því við að þau hafi átt auðvelt með að loka öllu á Íslandi og flytja.

Hvernig skyldu fyrstu mánuðirnir hafa verið í Svíþjóð, þessi ógleymanlegi tími sem markar upphaf hvers flutnings til framandi lands?

„Þetta var bara eins og að vera ferðamaður sem gleymir að fara heim,“ svarar Íris að bragði, „maður upplifir sig sem túrista en þarf svo að fara að kaupa í matinn og gúggla allt, hvert maður eigi að snúa sér með hitt og þetta og sækja um þetta og hvort þetta sé léttmjólk eða eitthvað annað,“ segir hún hlæjandi og Kjartan tekur við.

Þessi mynd var tekin þegar elsta dóttirin, Karen, fermdist.
Þessi mynd var tekin þegar elsta dóttirin, Karen, fermdist. Ljósmynd/Aðsend

Fékk húsið í arf

„Svo verður einhver lasinn og þarf að fara til læknis og maður verður rosalega stressaður og þarf að finna út úr því,“ segir hann og þau sammælast um að kerfið í Svíþjóð sé svo sem ekkert menningaráfall. En að læra á nýtt land er að læra á nýtt land og bara strætó- og lestakerfi geta verið áskorun, það þekkir sá sem hér ritar á eigin skinni.

Kjartan og Íris fluttu til Svíþjóðar í janúar 2016 en undirbjuggu sig af kostgæfni. „Sumarið áður var ég búinn að skottast hingað og skoða nokkur hús,“ segir Kjartan, „við vildum leigja til að byrja með en Andri Guðmundsson vinur minn var búinn að kíkja á nokkur hús fyrir mig. Svo duttum við niður á þetta sem við búum í núna, fréttum af því frá íslenskum kunningjum okkar sem urðu síðar kærir vinir okkar og bjuggu hér í Sollentuna þar sem við búum enn. Maðurinn sem átti það hafði fengið það í arf og vissi ekkert hvað hann ætti að gera við það.

Svo ég spurði hvort hann væri ekki til í að leigja okkur húsið sem var samþykkt og svo hringdi ég í hann í fyrra og spurði hann hvort hann væri ekki bara til í að selja okkur húsið og hann sagði bara jú, jú,“ segir Kjartan og hlær.

Miðdóttirin Hugrún á knattspyrnumóti en allar dætur Kjartans og Írisar …
Miðdóttirin Hugrún á knattspyrnumóti en allar dætur Kjartans og Írisar spila knattspyrnu með Sollentum FK. Ljósmynd/Aðsend

Hjálpuðust að

Hvernig skyldu störf þeirra hjóna hjá Raw Fury þá hafa komið til? „Það er önnur saga,“ svarar Kjartan, „ég var að vinna með áðurnefndum Andra í fyrirtækjaráðgjöf hjá H.F. verðbréfum sem það hét á þeim tíma. Hann var svo kominn hingað til Stokkhólms og við byrjuðum á að deila skrifstofu, hann var í sínu og ég var í mínu og við hjálpuðumst að eins og gengur,“ heldur hann áfram.

„Ég var búinn að vinna nánast alla mína starfsævi í fjármálageiranum, var að vinna í banka líka, en mig langaði svo að vinna við að byggja eitthvað upp, gera eitthvað varanlegt,“ segir Kjartan og á erfitt með að dylja eldmóð drauma sinna. Hann hafi því litið í kringum sig í Svíþjóð og þyrst í eitthvað annað en það gamla starfsumhverfi sem hann þekkti.

„Þá hitti ég Jónas Björgvin Antonsson í barnaafmæli hjá sameiginlegum vini og hann er með þennan tölvuleikjaútgefanda, Raw Fury, sem var að slíta barnsskónum, eins og hálfs árs gamalt fyrirtæki þá,“ segir Kjartan af starfsferli sem hófst í barnaafmæli. Jónas hafi þurft fjármálatengda ráðgjöf, verðmat og fleira. Kjartan tók að skoða Raw Fury og leist vel á. Svo kviknuðu spurningar.

„Er einhver að sjá um fjármálin hjá þér?“ spurði ég. „Já, það var nú einhver...eða nei, ekki núna kannski,“ svaraði hann og ég sagðist bara mæta á mánudaginn. Keyrum þetta í gang,“ segir Kjartan sposkur. Þetta var árið 2017 og síðan segir Kjartan Raw Fury hafa vaxið aldeilis fiskur um hrygg.

„Við erum næstum 100 manns núna og ég er starfsmaður númer átta eða níu minnir mig. Ég er fjármálastjóri grúppunnar, við erum með átta fyrirtæki, starfsstöðvar í Króatíu, Japan og Svíþjóð, með starfsfólk í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar,“ segir Kjartan af vexti og viðgangi Raw Fury. Í upphafi viðtalsins var minnst á fyrirtæki þetta sem tölvuleikjaforlag. Hvað er það eiginlega?

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 15. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »