Stefnir íslenska ríkinu fyrir rúmlega 120 milljónir

Hrafn Jökulsson rithöfundur.
Hrafn Jökulsson rithöfundur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rithöfundurinn Hrafn Jökulsson hefur höfðað tvö mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn ýmsum ráðherrum fyrir hönd íslenska ríkisins. Alls hljóða kröfur Hrafns upp á rúmlega 120 milljónir króna. 

Hrafn greindist með krabbamein í júlí en telur að læknamistök hafi verið gerð þar sem meinið hefði getað greinst fyrr. 

Í stefnunni, sem beinist gegn heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, greinir Hrafn frá því að hann hafi legið á Landspítala í mars á þessu ári. Bað hann þá um að langvarandi særindi í hálsi yrðu rannsökuð. Læknir lét taka blóðsýni og þreifaði á hálsinum sem Hrafn segir að hafi engu skilað.

Í júní fór Hrafn síðan á heilsugæslustöð þar sem læknir hafi áttað sig á alvarleika málsins. 

Telur Hrafn að læknirinn sem skoðaði hann í mars hafi gerst sekur um saknæma og ólögmæta háttsemi. Hefði æxlið uppgötvast fyrr hefði verið unnt að fjarlægja það strax og með því stórbæta lífslíkur Hrafns. 

Greinir hann frá því að tjónið megi jafna til 100% örorku og hann því óvinnufær það sem eftir er. Krefst hann rúmlega 58 milljóna króna í skaðabætur. 

Skorar Hrafn á Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að koma fyrir dóm er málið verður þingfest 8. september.

Handtaka á Brú í Hrútafirði

Seinni stefnan beinist gegn dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og er vegna handtöku Hrafns á Brú í Hrútafirði. 

Hann var handtekinn af sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglunni á Norðurlandi eystra 31. október árið 2020. 

Í stefnunni er meðal annars greint frá því að tveir sérsveitarmenn hafi „þuklað hann [Hrafn] með ónærgætnum og hrottalegum hætti... Hafi þetta verið honum sársaukafullt og lítilsvirðandi“.

Gagnrýnir Hrafn þá vinnubrögð læknis á Hvammstanga sem hafi greint lögreglu frá því að Hrafn hafi verið í „maníu“ án skoðunar og viðtals. Í kjölfarið var Hrafn nauðungarvistaður „gegn vilja sínum“ á lokaðri deild á Landspítala í 37 daga.

Krefst Hrafn rúmlega 65 milljón króna í skaðabætur í því máli og skorar á Willum Þór heilbrigðisráðherra, Bjarna, fjármála- og efnahagráðherra, og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að koma fyrir dóm er málið verður þingfest 8. september. 

mbl.is

Bloggað um fréttina