Nýju undirgöngin verða tilbúin í janúar

Framkvæmdir við ný undirgöngu undir Arnarnesveg eru í fullum gangi.
Framkvæmdir við ný undirgöngu undir Arnarnesveg eru í fullum gangi. mbl.is/Hákon

Ný göngu- og hjólagöng sem unnið er að undir Arnarnesveg, meðfram Hafnarfjarðarveginum, eru á áætlun og er áformað að koma Arnarnesveginum út á Arnarnesið í rétt horf fyrir veturinn. Þá er gert ráð fyrir að hægt verði að opna fyrir umferð gangandi og hjólandi um göngin í janúar og að lokafrágangur verði næsta vor.

Göngin eru hluti af þeim framkvæmdum sem farið hefur verið í eða fara á í á næstu árum samkvæmt sam­göngusátt­mál­a sem und­ir­ritaður var á milli sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu og rík­is­ins. Þegar þau verða komin í notkun geta gangandi og hjólandi vegfarendur komist frá Garðabæ yfir Arnarnes og langleiðina upp Kópa­vogs­háls­inn án þess að þurfa að þvera um­ferðargötu.

Engin tilboð bárust í fyrsta útboðið

Upphaflega var framkvæmdin boðin út í vetur, en ekkert tilboð barst þá. Katrín Hall­dórs­dótt­ir, sér­fræðing­ur fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið hjá Vega­gerðinni og verkefnastjóri þessa verkefnis, segir í samtali við mbl.is að aftur hafi verið farið í útboð með örlítið rýmkuðum ramma og þá hafi boðist tilboð í verkið. Þetta hafi hins vegar örlítið seinkað framkvæmdinni, en upphaflega var gert ráð fyrir að opna göngin fyrir umferð fyrir lok nóvember í staðinn fyrir lok janúar á næsta ár.

Kortið sýnir alla þá hjólastíga sem horft er til að …
Kortið sýnir alla þá hjólastíga sem horft er til að leggja á árunum 2020-2024 samkvæmt samgöngusáttmálanum, en sérstaklega er bent á þær framkvæmdir sem í fyrra var stefnt var á að hefja framkvæmdir við á þessu ári. Kort/mbl.is

„Verður hægt að hjóla þarna í gegn í janúar

Framkvæmdir hófust fyrr í sumar og var framkvæmdinni skipt upp í norður- og suðurverkefni. Var byrjað norðan megin á framkvæmdinni. Við það þurfði að rjúfa hefðbundna bílaumferð eftir akveginum, en í staðin var sett hjáleið inn á Arnarnesið örlítið sunnar. Nú er unnið að því að slá upp veggjum og steypa þá upp norðan megin og verður loftið í kjölfarið sett á og vinna við að ganga frá veginum yfir. Katrín segir að í kjölfarið verði hægt að opna fyrir umferð aftur um Arnarnesveginn á þessum stað og þá hefjist framkvæmdir við suðurhluta verkefnisins, en í miðjunni er jafnframt gert ráð fyrir ljósop á þessi 30 metra löngu göng.

Katrín segir að hingað til hafi mest allt gengið vel og að verkið sé svo gott sem á áætlun og að gert sé ráð fyrir að það klárist á tilsettum tíma. „Þá verður hægt að hjóla þarna í gegn í janúar á nagladekkjum,“ segir hún.

Leiðin yfir Arn­ar­nesið er ein af fjöl­förn­ustu stof­næðum fyr­ir hjólandi um­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu í dag, en hún teng­ir m.a. Reykja­vík við Garðabæ og Hafn­ar­fjörð. Á þeirri leið þarf þó að fara yfir bæði Arn­ar­nes­háls­inn og Kópa­vogs­háls­inn þar sem bæði nokk­ur hækk­un er og fólk þarf að þvera um­ferðargöt­ur.

Undirstöðum fyrir nýja Dimmubrú næsta vor

Líkt og mbl.is hefur fjallað um áður eru fleiri framkvæmdir í gangi í tengslum við göngu- og hjólastíga sem Vegagerðin hefur umsjón með. Til viðbótar er svo fjöldi verkefna í gangi á vegum sveitarfélaganna sem Vegagerðin kemur ekki nærri.

Þannig er undirbúningur í gangi fyrir brú yfir Dimmu, þ.e. Elliðaárnar rétt fyrir neðan Breiðholtsbraut. Vegna laxveiði má ekki framkvæma á svæðinu milli október og apríl, en Katrín segist vonast til þess að undirstöður fyrir brúnna verði komnar fyrir vorið. Þá verði í kjölfarið hægt að leggja gólfið á brúnna án tímapressunnar.

Stefnt er að því að hægt verði að ganga og …
Stefnt er að því að hægt verði að ganga og hjóla um nýju göngin í janúar og að opnað verði fyrir umferð bíla á ný á Arnarnesveg fyrir veturinn. mbl.is/Hákon

Strandgatan klárast í haus

Við Ásbraut í Kópavogi er jafnfram horft til þess að bæta hjólainnviði og gera betri hjólastíg sem liggur þá niður frá Hamraborg að Kársnesbraut. Katrín segir verkhönnun í gangi og að stutt sé í útboð verksins. „Við stefnum á framkvæmdir þar næsta vor.“ Þá segir hún að bæting á leiðinni um Kópavoginn á milli Arnarness og Kársness vera í undirbúningi, en að tímarammi fyrir það verkefni liggi ekki alveg fyrir.

Í sumar hafa einnig átt sér stað framkvæmdir við Strandgötu í Hafnarfirði og segir Katrín þær vera á áætlun og að áformað sé að þær klárist í haust.

Framkvæmdir við Ánanaust hefjist í haust

Talsvert hefur verið rætt um framkvæmdir við Litluhlíð, en þar voru gerð göng undir götuna sem tengir þá Veðurstofuhæðina við Skógarhlíð. Búið er að opna fyrir umferð þar um en frágangi er ekki lokið. Katrín segir að í framhaldinu eigi nú að fara í verkhönnun á hjólastíg niður Skógarhlíðina og svo sé áformað að fara í útboð eftir áramót. „Vonandi verður þetta vorframkvæmd,“ segir hún.

Við Ánanaust er einnig stefnt á framkvæmdir í haust, en þar hefur grjótavarnargarður verið endurnýjaður. Tengja á aðskilda göngu- og hjólastíga sem liggja meðfram öllum Eiðsgranda og við Grandann og Mýrargötuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert